131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:35]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið og get tekið undir eiginlega allt sem þar kom fram. Þegar rætt er um vegagerð til Siglufjarðar er sú saga ansi skrautleg, ef svo má að orði komast, og hvet ég hv. þm. Kristin H. Gunnarsson til að lesa þá sögu, eins og t.d. 20, 30 ára sögu Siglfirðinga að fá vegtengingu við landskerfið, kringum 1920/30 fjárframlag bæjarsjóðs Siglfirðinga og einstaklinga til að búa til Skarðsveginn sem var gerður með haka og skóflu 1940. Sá vegur og sú vegtenging til Siglufjarðar var ófær frá fyrstu snjóum og fram á vor. Þeirri einangrun lauk með gerð Strákaganga sem opnuð voru 1967.

Nú, virðulegi forseti, hillir hins vegar loksins undir framtíðarlausn, framtíðarvegagerð með gerð Héðinsfjarðarganga og vil ég nota tækifærið og þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir kröftugan og öflugan stuðning við að koma því verki í gang, bæði með samþykkt jarðgangaáætlunar árið 2000 og samgönguáætlunar 2003. (Forseti hringir.)

Hins vegar tel ég, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) dálítið skrýtið hvernig hv. þingmaður er að fiska í gruggugu vatni (Forseti hringir.) í Norðvesturkjördæmi, kannski sérstaklega í Fljótum eða einum bæ Fljóta.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða ræðutíma.)