131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:57]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Þetta frumvarp er svo sem ekki mikið að vöxtum. Það er einungis tvær greinar.

1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.“

Í 2. gr. stendur síðan: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta lætur svo sem ekki mikið yfir sér, frú forseti, en það er ástæða til að kafa dýpra í þetta mál. Ég gerði það því að mér fannst í sjálfu sér merkilegt að það skyldi þurfa að taka fyrir sérstaklega á Alþingi svo litla skipulagsbreytingu eða breytingu á hlutverki sjóðs sem raun ber vitni og flytja um það sérstakt frumvarp með öllu því sem tilheyrir. Því fór ég að velta fyrir mér hvað lægi að baki. Í athugasemdum með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Með 9. gr. laga nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, var stofnaður sérstakur sjóður (Vöruþróunar- og markaðssjóður síldarútvegsins) og hljóðar greinin þannig:

„Stofna skal sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun. Stofnfé sjóðsins skal vera 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.

Sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár fyrir stofnunina sem skal staðfest af dómsmálaráðuneyti, sbr. lög nr. 19/1988.““ — Það eru lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Þessi sjóður er stofnaður í ágúst 1998 með staðfestri skipulagsskrá. Í samræmi við hana hafa félög síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi tilnefnt menn í sjóðinn, fjóra menn samtals. Þessi sjóður lýtur alfarið stjórn síldarútvegsmanna, „enda er hann byggður upp fyrir það fé sem þeir greiddu til síldarútvegsnefndar af verðmæti útfluttra síldarafurða á sínum tíma“ segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta.

„Stjórn sjóðsins telur að hagsmunir síldarútvegsmanna liggi í fleiru en vöruþróun og öflun nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Þá hafa tiltölulega fáir aðilar sótt um styrki úr sjóðnum frá stofnun hans. Því hefur stjórnin lagt til við sjávarútvegsráðuneytið að verksvið sjóðsins verði víkkað. Er hér lagt til að nýjum málslið verði bætt inn í ákvæðið þannig að stjórn sjóðsins verði almennt heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Er það í samræmi við vilja stjórnar sjóðsins.“

Frú forseti. Þetta er gott og blessað svo langt sem það nær. Í meðferð sjávarútvegsnefndar fengum við ýmsar umsagnir með þessu máli þar sem aðilar töldu sitt hvað um ágæti þess að breyta skipulagsskránni með því að víkka út verksvið sjóðsins og gera hann meira að almennum úthlutunarsjóði, þó ekki alveg jólagjafasjóði, en hlutverk hans yrði orðið mjög vítt eins og ég hef hér lýst. Þó komu þarna athugasemdir sem var alveg ástæða til að taka mark á, athugasemdir umsagnaraðila sem greinilega þekktu vel til og gátu gefið umsagnir á faglegum forsendum. Ég vil t.d. vitna til umsagnar Landssambands smábátaeigenda um málið. Sú umsögn er dagsett 19. apríl 2005 og þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að „Vöruþróunar- og markaðssjóður síldarútvegsins“ fái víðtækara hlutverk en verið hefur. Í stað þess að einskorða styrkveitingar úr sjóðnum við að efla vöruþróun og markaðsstarf síldarafurða er lagt til að honum verði heimilt að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.

Í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að eigið fé sjóðsins sé 150 milljónir.“ — Í umræðunni hefur komið fram, frú forseti, að þar er um einhvern misskilning að ræða af hálfu fjármálaráðuneytisins. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur gert grein fyrir því án þess þó að fyllilega hafi verið skýrt hvernig sá mismunur kom inn. Ég kem að því síðar í ræðu minni. En áfram segir í umsögn Landssambands smábátaeigenda um málið, með leyfi forseta:

„Landssambandi smábátaeigenda – LS – finnst skorta í frumvarpið upplýsingar um starfsemi „Vöruþróunar- og markaðssjóðs síldarútvegsins“. Í athugasemdum með frumvarpinu koma engar upplýsingar fram um sjóðinn, hvaða verkefni hann hefur styrkt, hvaða árangurs styrkveitingar hafa leitt til og þess háttar upplýsingar sem nauðsynlegt er að hafa við höndina þegar umsögn er veitt. Þá verður það að teljast óviðunandi að ekki séu veittar upplýsingar um fjárhagsstöðu sjóðsins í frumvarpinu. Aðeins í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að eigið fé sjóðsins sé 150 milljónir.“ — Ég ítreka að hér hefur verið rakið að það er ekki rétt tala.

Enn segir í umsögn Landssambands smábátaeigenda:

„Umsögn LS ber því nokkurn keim af upplýsingaskorti.

Það er skoðun LS að auka eigi áherslu á vöruþróun og markaðsmál í sjávarútvegi. Á sl. missirum hefur komið í ljós að í þeim þáttum er það helst þar sem skórinn kreppir. LS leggur því til að frumvarpið hljóti ekki afgreiðslu.“ — Ég vek athygli forseta á því að Landssamband smábátaeigenda leggur til að frumvarpið hljóti ekki afgreiðslu. — „LS telur að starfsemi sjóðsins eigi að vera óbreytt, starfa á þröngu sviði í stað þess að dreifa kröftunum til þeirra þátta sem lagt er til í frumvarpinu.“

Ég tel þessa athugasemd Landssambands smábátaeigenda, frú forseti, afar þýðingarmikla og hún fellur að þeim kjarna og þeirri stefnu sem ég hef sjálfur verið að móta mér eftir því sem ég hef kynnt mér málið frekar. Það á ekki að vera að fletja starfsemi svona sjóða út með þessum hætti, og ég kem nánar að því síðar. Ef það er samdóma álit allra þeirra sem hlut að eiga að slíkir sjóðir geti ekki gegnt því hlutverki lengur sem þeim var upphaflega gert að gegna með tilurð sinni og skipulagsskrá á frekar að leggja þá niður og láta féð renna til þeirra aðila sem gert er ráð fyrir að gerist ef sjóðurinn er lagður niður. Þá verður upphaflegt tilefni að vera horfið. Það er ótækt að víkka verkefni sjóðsins út og suður og út um allt. Þá tel ég að verið sé að misþyrma þeim möguleikum og markmiðum sem aðilar eru almennt að setja með stofnun slíkra sjóða. Stofnun slíkra sjóða er um afmörkuð mál, og það er þessi sjóður.

Frú forseti. Ekki hvað síst á grundvelli þessarar umsagnar Landssambands smábátaeigenda lék mér sérstök forvitni á að kynna mér tilurð sögunnar á bak við þennan sjóð. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki það þingreyndur að ég þekkti þá sögu. Ég kannaði bakgrunninn í stofnun þessa sjóðs, og eins og hv. þm. Jón Gunnarsson rakti á þetta sér langan aðdraganda og langa sögu. Verum minnug þess að síldveiðar og síldarútvegur var einn öflugasti atvinnuvegur landsmanna um áratugi og hafði afgerandi áhrif á þjóðartekjurnar, síldveiðarnar fyrir norðan og austan, síldveiðarnar út af Vestfjörðum, síldveiðarnar í Húnaflóa og svo mætti telja. Þetta var gull Íslands. Því miður lentum við í ógöngum sem margir aðrir gullgrafarar lenda í, þá grafa menn undan sér útsæðið. Síldin hvarf af Íslandsmiðum með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahagslíf þjóðarinnar eins og við þekkjum, tímabundið sem þjóðin hefur þó sem betur fer risið frá. Síldarútvegurinn, síldveiðarnar voru um áratugi … (Gripið fram í: Siglufjörður.) t.d. var Siglufjörður mikill síldveiðibær. Hver þekkir ekki sögu Siglufjarðar? Siglufjörður skaffaði um tíma nálægt 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar (Gripið fram í.) sem fara í gegnum útskipun frá Siglufirði. Það var að megninu til síld. (Gripið fram í.) Við þekkjum sögu fleiri, Hjalteyrar, Skagastrandar, Djúpuvíkur, (Gripið fram í: Raufarhöfn.) Ingólfsfjarðar, Raufarhafnar, þannig að það er ekki aðeins í efnahagslegu tilliti sem síldveiðarnar hafa gegnt svona gríðarlegu lykilhlutverki, heldur líka í atvinnusögu og menningarsögu þjóðarinnar á síðustu öld og reyndar fyrr. Menn skyldu fara varlega í að ganga kæruleysislega um sjóði sem hafa verið stofnaðir afmarkað, t.d. um síldarútveg og síldarvinnslu. Ég kem að þessum atriðum betur síðar, frú forseti.

Ég skoðaði lögin um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Þau eru frá 28. maí 1998 og vil ég aðeins rekja forsöguna að þessu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Stofna skal hlutafélag er nefnist Íslandssíld hf. Ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, taka til Íslandssíldar hf. ef annað leiðir ekki af lögum þessum. Sjávarútvegsráðherra annast undirbúning að stofnun félagsins.“

Síðan er rakið hlutverk Íslandssíldar hf. og m.a. hvert skuli vera eigið fé Íslandssíldar hf. og hvernig farið skuli með hlut. Síðan kemur um ráðstöfun á ákveðnu fjármagni og þar segir í 8. gr. þessara laga sem samþykkt voru á Alþingi 28. maí 1998, með leyfi forseta:

„Stofna skal sjóð sem skal renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjóðurinn skal vera í vörslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Stofnfé sjóðsins skal vera 110 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar. Ráðstöfun fjár úr sjóðnum skal háð samþykki sjávarútvegsráðherra og skal árleg ráðstöfun miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins.“

Síðan komum við að 9. gr., frú forseti. Þar stendur:

„Stofna skal sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun. Stofnfé sjóðsins skal vera 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.

Sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár fyrir stofnunina sem skal staðfest af dómsmálaráðuneyti, sbr. lög nr. 19/1988.“

Síðan stendur í 10. gr.:

„Sjóður sá sem um er rætt í 8. gr. skal undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem þeir nefnast. Framlag til sjóðs þess sem um er rætt í 9. gr. skal undanþegið tekjuskatti.“

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, frú forseti, að hér væri verið að stofna tvo sjóði. Það var verið að stofna tvo sjóði á grundvelli eigna síldarútvegsnefndar. Að vísu brá okkur nokkuð í sjávarútvegsnefnd að sjá umsögn fjármálaráðuneytisins um þennan sjóð sem við erum að fjalla um, sjóð í þágu síldarútvegsins. Þá kom allt önnur tala um eignirnar en við gátum fundið að væri raunin eftir öðrum leiðum. Þegar grennslast var fyrir um það hvernig þessi misskilningur gæti verið kominn til virtist sem þeir hefðu spurst fyrir um einhvern annan sjóð hjá Hafrannsóknastofnun. Ég var alveg grandalaus fyrir því að þessir sjóðir tengdust á nokkurn hátt. Við spurðum að vísu um það og mig minnir að ég hafi lagt það til í hv. sjávarútvegsnefnd að send yrði sérstök fyrirspurn til Hafrannsóknastofnunar um hvaða sértækir sjóðir væru í vörslu hennar sem lytu að hinum ýmsu verkefnum. Ég minnist þess að ég bað um það og hefði gjarnan viljað fá það sem fyrst inn í umræðuna. Þegar maður fer síðan að lesa um stofnun þessara sjóða er í raun verið að stofna tvo sjóði. Það er verið að stofna einn sjóð sem skal renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar, og samkvæmt lögunum skal stofnfé þess sjóðs skal vera 110 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar, og síðan er verið að stofna annan sjóð, sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun.

Mér finnst að úr því að farið er að taka á þessu máli hefði nefndin átt að taka báða þessa sjóði fyrir. Báðir þessir sjóðir verða til við ákveðið uppgjör, ákveðin tímamót sem eru í umgjörð og rekstri síldarútvegsins. Þeir verða báðir til með skilgreindum hlutverkum hvor um sig. Við hefðum átt að taka þá báða til meðferðar og spyrja: Er ástæða til að taka þessa ákvörðun sem tekin var árið 1998 til endurskoðunar í heild sinni um stofnun þessara sjóða, ekki bara taka annan sjóðinn eins og við erum hér að gera? Við erum bara að taka annan sjóðinn hér.

Hitt segir mér svo líka talsvert um þau markmið sem aðstandendur hafa í huga þegar verið er að stofna þessa sjóði. Þeir hafa í huga mjög aðgreind verkefni sjóðanna. Þess vegna finnst þeim ástæða til að stofna tvo sjóði, eða ég les það út úr þessari ákvörðun, með afar afmörkuðum verkefnum hvors um sig. Það lýsir að mínu viti einbeittum vilja og ákveðnum markmiðum sem vinna átti að. Þess vegna tel ég að það sé í fullkominni þversögn við þau markmið sem sett voru á sínum tíma að taka nú annan sjóðinn og víkka verksvið hans nánast út í það óendanlega. Það er verið að víkka það út að hann eigi að styrkja nýsköpun, rannsóknir, fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Viðfangsefnið er gott, en erum við ekki komin býsna langt frá þeim verkefnum sem þessum sjóði var ætlað að sinna?

Mér fannst mjög athyglisvert að við værum aðeins að fjalla um afmarkaðan þátt þeirra ákvarðana sem teknar voru árið 1998 þegar stofnaðir voru tveir sjóðir á grundvelli eigna síldarútvegsnefndar, en við erum aðeins að fjalla um annan sjóðinn. Mér er ekki kunnugt um með hvaða hætti grein hefur verið gerð fyrir starfsemi þessa sjóðs sem síldarútvegsnefnd ákvað að fela Hafrannsóknastofnun forsjá yfir, þ.e. hvernig honum yrði ráðstafað. Ég á ekki von á öðru en að það sé gert mjög faglega en markmiðið á sínum tíma var mjög afdráttarlaust.

Frú forseti. Ég leit á ræður sem fluttar voru af þessu tilefni á sínum tíma. Þannig vill til að þá var Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra og mælti hann fyrir frumvarpi um stofnun þessara sjóða. Þar eru raktir ítarlega hagsmunir þeirra sem komu að síldarútvegsnefnd á sínum tíma, bæði útgerðarmanna, síldarsaltenda og söluaðila á síld sem mynduðu þetta apparat og sem mynduðu líka hinn hugmyndafræðilega bakgrunn fyrir verkefni þessara sjóða. Ekki er ástæða til að gera lítið úr því. Ég vil leyfa mér að vitna aðeins í ræðu þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorsteins Pálssonar, sem var haldin 16. mars árið 1998, m.a. um að stofna hlutafélag um síldarútvegsnefnd og um stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að matsnefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra meti verðmæti eigna síldarútvegsnefndar. Þá er gert ráð fyrir að hlutafélagið taki, við stofnun félagsins, við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar, öðrum en þeim sem renna til sjóðs til síldarrannsókna og í vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóð, sem lagt er til að verði stofnaðir. Rétt þykir að stofnfé Íslandssíldar hf. miðist við að Íslandssíld hf. fái, með hliðsjón af eðli starfseminnar og markaðsaðstæðum, traustan rekstrargrundvöll.

Eins og áður er vikið að er gert ráð fyrir að tveir sjóðir verði stofnaðir, annars vegar síldarrannsóknasjóður og hins vegar vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóður. Lagt er til að síldarrannsóknasjóðurinn renni til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar en síldarrannsóknir eru nær eingöngu stundaðar af Hafrannsóknastofnuninni. Með hliðsjón af því að fé sjóðsins á samkvæmt frumvarpinu alfarið að renna til Hafrannsóknastofnunarinnar þótti eðlilegt að sjóðurinn verði í vörslu hennar. Lagt er til að stofnfé síldarrannsóknasjóðsins nemi 110 millj. kr. Tekið var mið af hlutdeild þeirra aðila sem ekki eiga rétt á hlutafé, þ.e. gjaldþrotaskiptum í búi þeirra er lokið eða félagi þeirra hefur verið slitið með öðrum hætti en samruna við önnur félög, en það eru um 20–25% af eigin fé félagsins. Gert er ráð fyrir að vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðurinn verði ekki eign ríkissjóðs heldur sjálfseignarstofnun. Lagt er til að stofnfé sjóðsins verði 80 millj. kr. Eðlilegt er að tryggja eftirlit með því að sjóðurinn verði starfræktur í samræmi við skipulagsskrána og er því lagt til að sjóðurinn starfi samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög. nr. 19/1988. Þar sem sjóðurinn er stofnaður með lögum er eðlilegt að skipulagsskrá sjóðsins sé undirbúin af sjávarútvegsráðherra. Með stofnun framangreindra sjóða þykir tryggt að fé síldarútvegsnefndar renni til málefna sem eru til hagsbóta fyrir síldarútveginn þannig að nýsköpun, sókn í vöruþróun og markaðssetningu og stöðug og góð rekstrarskilyrði iðnaðarins verði sem best tryggð.“

Í ræðu sinni, frú forseti, sem ég tel að eigi að vera mjög mikilvægt lögskýringargagn fyrir því sem verið er að gera, leggur ráðherrann þunga áherslu á að þarna séu á ferðinni aðgerðir sem renni til málefna sem eru til hagsbóta fyrir síldarútveginn þannig að nýsköpun, sókn, vöruþróun, markaðssetning og stöðug og góð rekstrarskilyrði síldariðnaðarins verði sem best tryggð.

Mér finnst þurfa brýna nauðsyn til ef ganga á á svig við eða breyta í grundvallaratriðum markmiðum sem sett eru fyrir stofnun þessara sjóða. Ég tók af handahófi, frú forseti, líka ræðu eins hv. þingmanns í þessari umræðu sem ég vil vitna til. Það er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem fjallar um þetta mál en hann segir, með leyfi forseta:

„Sjálfsagt má lengi deila um það hvernig ráðstafa á þessum eignum. Hitt tel ég að sé þó tæplega umdeilanlegt að þeir sem lagt hafa mest af mörkum og byggt upp þær eignir sem til skipta eru í síldarútvegsnefnd séu framleiðendur eða viðskiptaaðilar nefndarinnar á liðnum tíma. Það er þá frekar að menn mundu velta fyrir sér þeim hlutföllum sem eru þarna sett upp hvað varðar annars vegar eigendur eða framleiðendur liðins tíma og hins vegar þann hlut sem fyrirtækið sjálft, Íslandssíld hf., á að eignast til endursölu.

Varðandi sjóðina verkar það kannski fljótt á litið svolítið flókið að það skuli þurfa að stofna til tveggja sjóða í þessu skyni, annan til að styrkja rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar og hinn til að efla vöruþróun síldarafurða en sjálfsagt eru fyrir því rök að menn hafi talið heppilegra að halda þessu tvennu aðgreindu.“

Í þessari umræðu kemur einmitt fram að það eru mjög þröng og ákveðin markmið sem hvorum sjóði eru sett. Annars hefði verið lagt í einn sjóð, að mínu viti, þar sem verið hefðu tiltölulega víð markmið um styrkveitingar. (BJJ: Á sjóðurinn að geta styrkt Síldarminjasafnið?) Þetta er alveg hárrétt vangavelta, frú forseti, hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni sem grípur fram í og nefnir Síldarminjasafnið á Siglufirði. Ég kem að því nánar seinna í ræðu minni. Sjóðnum eru sett mjög ákveðin markmið og allir þeir, ég hef litið á fleiri ræður sem voru fluttar af þessu tilefni þegar verið var að stofna þessa tvo sjóði, sem tóku til máls leggja áherslu á að þarna er verið að horfa til mjög sérgreindra verkefna þessara sjóða.

Ég vil nefna það hér að ég er ekki að ásaka nefndarformann eða aðra í nefndinni um að hafa ekki komið með þessi gögn inn í nefndina, alls ekki. Ég fór sjálfur af stað af því að mér lék forvitni á að vita um tilurð þessa sjóðs. Þá fór ég ofan í sögu hans. Maður fór að hugsa, sjóðir sem voru byggðir upp með aðgreind markmið á félagslegum grunni hinna ýmsu atvinnugreina hafa einmitt gert mjög sérgreint gagn. Þá var ég minnugur umræðu sem við tókum hér fyrir skömmu síðan um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég sé að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kinkar kolli. Þar tókum við líka umræðu um sjóð sem var stofnaður fyrir skilgreint hlutverk sem ég reyndar dreg mjög í efa að hafi verið skynsamlegt. Það var að úrelda fiskiskipin og banna skipum að veiða. En á þingi fyrir einum tveim, þrem árum, eða líklega fjórum, var samþykkt að Þróunarsjóður sjávarútvegsins kæmi að því að styrkja atvinnusögu sjávarútvegsins. Þegar lagt var fram frumvarp um að leggja sjóðinn niður gripum við eðlilega til þess, þingmenn, og vildum að Alþingi stæði við samþykkt sína um að verja fjármagni frá Þróunarsjóðnum til að koma að atvinnusögunni, endurgerð og varðveislu skipa eða annarra atvinnu- og menningarsögulegra verðmæta. Í því tilviki þótti þó meiri hluta Alþingis tilhlýðilegt að ganga gegn fyrri einróma samþykkt Alþingis og láta sjóðinn renna í heilu lagi inn til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna í sjávarútvegi. Það er gott verkefni í sjálfu sér en engu að síður þykir mér óeðlilegt hversu eðlilegt þótti að taka þennan sjóð og slátra honum með þessum hætti. Ég leyfi mér að taka mér það orð í munn, það var verið að slátra honum, slá hann af. Þetta er tungutak sem við í sveitinni skiljum.

Þá fer maður líka að velta fyrir sér þessum sjóðum, síldarútvegssjóðunum. Þó að síldin hafi nú um tíma horfið af miðunum og veiðar á síld hafi gegnt minna hlutverki að undanförnu en á nokkrum áratugum áður og ég hef rakið fyrr í ræðu minni berum við von í brjósti um endurkomu síldarinnar. Það er líka ýmislegt sem bendir til að síldin sé að koma aftur og ná sér upp sem veiðistofn og muni ganga á Íslandsmið. (Gripið fram í: Hærra hitastig.) Hærra hitastig, það gæti a.m.k. verið. Það er allt sem bendir til þess, og við hljótum að bera þá von í brjósti að síldin komi á miðin og við náum að vera með það farsæla fiskveiðistjórn og umgengni um sjávarauðlindina að síldarstofninn fái vaxið á ný.

Þó að þessi sjóður sé ekki stór nú getur hann samt áfram gegnt því hlutverki sem honum var ætlað og jafnvel mætti hugsa sér að auka þar í ef ástæða væri til til að halda honum við efnið. Hafi markmið með stofnun þessara sjóða á sínum tíma verið gilt hefur í sjálfu sér ekkert breyst í þeim efnum að mínu mati, síður en svo. Ef eitthvað er hef ég frekar styrkst í þeirri trú að þessi sjóður sem lýtur að því að stuðla að rannsóknum í síldveiðum eigi að fá að halda sér sem slíkur, einmitt til síldarrannsókna. Ég held t.d. að nú þegar séu komin sérhæfð verkefni sem sjóðurinn gæti tekið upp á arma sína. Síldin er að ganga inn á grunnslóð, t.d. fyrir Norðurlandi og þar væri vel hægt að taka afmörkuð rannsóknarverkefni á hátterni og magni síldarinnar, nú þegar hún er að koma þar inn aftur. Sjóðurinn gæti einbeitt sér að því einmitt núna.

Hinn möguleikinn er, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson kallaði fram í og var ágætisframmíkall, frú forseti, að ef ekki þykir ástæða til að sjóðurinn gegni lengur þessu sértæka hlutverki sínu varðandi síldarrannsóknir eru síldveiðarnar svo stór hluti af atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar og mannvirkin sem tengjast síldarútveginum og síldarvinnslunni svo söguleg verðmæti að okkur ber skylda til að halda þeim til haga, halda þeim við og bera fram. Það er t.d. mjög forvitnilegt og ég held öllum mjög eftirminnilegt sem koma í síldarverksmiðjurnar á Djúpuvík og fá að sjá þau gríðarlegu mannvirki sem þar voru byggð á örskömmum tíma í raun. Þau voru rekin þar um tíma með alveg ótrúlegum afköstum. Ég held að öllum sem koma að hinum gríðarlegu mannvirkjum sem standa við botn Reykjarfjarðar sé mjög mikill lærdómur að fá að labba þar í gegn undir góðri leiðsögn fjölskyldunnar í Djúpuvík. Ef ekki er lengur ástæða til að verja fjármunum svona sjóðs til síldarrannsókna gæti hann vel haft skyldur gagnvart þessum menningarverðmætum, einmitt þeim mannvirkjum og síldarútvegsplássum sem skópu þjóðarauðinn í áratugi á síðustu öld. Þessi sjóður er m.a. ávöxtur þess. Því skyldum við ekki skila einhverju af þessum peningum til baka til að halda sögunni og menningarverðmætunum við og gera þau þannig að hægt sé að sýna þau ferðamönnum og halda til haga í atvinnusögu þjóðarinnar?

Það eru fleiri staðir vítt og breitt um landið, sértækir staðir sem áttu gríðarlegan þátt í að byggja upp auð Íslendinga úr silfri hafsins. Okkur ber skylda til að halda þessum sögu- og menningarverðmætum til haga. Ef á annað borð á að breyta reglum þessa sjóðs sem ég er ekki samþykkur eða hef mikla fyrirvara við hefði líka mátt taka þennan þátt inn í ráðstöfun fjárins frá þessum sjóði. Það hefði t.d. verið fínt að fá fjármagn úr honum til að búa út eins og ég hef nefnt síldarverksmiðjuna í Djúpuvík, þau gríðarlegu mannvirki sem þar eru, og forvitnilegt að skoða, sjá og upplifa og reyna að setja sig inn í það sem þar hefur farið fram. Þannig er víðar. Menn hafa nefnt Hjalteyri líka án þess að ég telji mig geta farið í tæmandi upptalningu. Engu að síður ber þjóðin öll siðferðislegar skyldur og ábyrgð á þessu öllu. Þetta eru verðmæti sem tilheyrðu síldarútveginum og atvinnulífinu á sínum tíma og við eigum að varðveita þau.

Frú forseti. Ég var á þessu nefndaráliti með fyrirvara og ég viðurkenni hér að ég hafði ekki sett mig inn í forsögu málsins þegar það var afgreitt út úr nefnd. Takmarkaðar upplýsingar komu inn og ég leitaði mér ekki þá þegar upplýsinga um forsöguna, taldi þetta ekki vera slíkt stórmál, taldi reyndar að þetta væri mál sem ætti ekki að koma inn á borð Alþingis, mál sem ætti bara að afgreiðast milli sjávarútvegsráðherra og viðkomandi stjórnar sjóðsins. Eftir að hafa farið í gegnum bakgrunninn skynja ég þungann í þeirri umræðu sem var að baki þessara gjörða og gjörninga og stofnunar þessara sjóða. Hér var ekki verið að stofna einn sjóð, hér var verið að stofna tvo sjóði. Í umræðunni höfum við bara rætt um einn sjóð, bara þennan sjóð sem var stofnaður með sérstakri skipulagsskrá um vöruþróun síldarafurða og að afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir.

Ég hefði viljað fá hinn sjóðinn sem var stofnaður um sama leyti og átti að renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar líka inn í þessa umræðu. Ég tel að sú ákvörðun á sínum tíma að stofna þessa tvo sjóði á grundvelli eigna síldarútvegsnefndar hafi verið vel ígrunduð ráðstöfun og það sé því rangt gagnvart okkur hér nú á Alþingi að ganga aðeins inn á annan sjóðinn og breyta verkefnasviði hans gegn mjög afdráttarlausum yfirlýsingum og skilgreindum markmiðum sem honum voru sett í byrjun. Við ætlum að taka okkur vald til að breyta honum og fletja út. Ég tel það mjög ósanngjarnt gagnvart þeim markmiðum sem sjóðurinn var stofnaður undir. Einnig finnst mér að hinn sjóðurinn sem stofnaður var um leið til síldarrannsókna ætti að vera hér til umræðu þannig að við tækjum báða þessa sjóði saman, allan þennan gjörning sem var verið að gera á eignum síldarútvegsnefndar á sínum tíma eigum að ræða í heild sinni en ekki svona í bútum.

Frú forseti. Ég hef farið í gegnum nokkur atriði sem ég vildi koma að varðandi þetta mál. Eftir því sem ég hef farið dýpra inn í það er ég meira og meira efins um að þingið eigi að afgreiða það. (JGunn: Hvað með ráðherra?) Það er von að hv. þm. Jón Gunnarsson spyrji um ráðherrann. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hefur farið ofan í forsöguna. Ég get virt honum það til vorkunnar hafi hann ekki gert það, án þess að ég ætli neitt að fullyrða um það. Forsaga þessa máls er byggð upp á mjög grunduðum forsendum sem við höfum að mínu viti enga heimild til (Gripið fram í: Ráðherra … vöruþróun …) að vera að hrófla við með svona aðgerð. Það eru þegar komin næg afmörkuð verkefni til að rannsaka og þróa vöruafurðir úr síld, eins og þessi sjóður var upphaflega stofnaður til, og ég er nú þeirrar skoðunar að ekki eigi að breyta skipulags- eða verkefnaskrá þessa sjóðs heldur láta hana standa óbreytta og krefjast þess og hvetja aðstandendur sjóðsins til að beita honum í þágu þeirra markmiða sem hann var stofnaður til, frú forseti.