131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna svars hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um mikla geðlyfjanotkun barna. Við höfum sett heimsmet í notkun lyfja tengdum athyglisbresti og ofvirkni hjá börnum, segir í svari hæstv. ráðherra þar sem hann vitnar í eftirlitsstofnun Sameinuðu þjóðanna með ávana- og fíkniefnum. Eru tölurnar frá 2003.

Ég spyr: Hvað er að gerast? Eru svona miklu fleiri íslensk börn með þessa sjúkdóma en börn í öðrum löndum? Á Íslandi erum við með 5,27% skilgreinda dagskammta á þúsund íbúa á meðan Danir eru með 0,4%, Norðmenn með 0,35% og Finnar með 0,29%. En við með 5,27%.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að bregðast við þeim alvarlegu upplýsingum sem koma fram í svari hans við þessari fyrirspurn minni. En ég held að meira þurfi til. Þetta ástand er ekki eðlilegt og einhvers staðar er pottur brotinn.

Níu mánaða stúlkubarn var sett á forðatöfluna rítalín SR í forvarnaskyni vegna þess að fjögurra ára bróðir hennar hafði greinst ofvirkur og verið settur á lyf, þrátt fyrir að framleiðandi lyfsins taki fram að það sé ekki ætlað börnum undir sex ára. Þetta kemur fram hjá fjölskylduráðgjafanum Karen Kinchin í Morgunblaðinu í mars sl. en fyrir fjórum árum varaði hún við þeirri þróun sem kemur fram í svari ráðherra ef ekki yrði brugðist við.

Við verðum að skoða aðrar leiðir og ég hvet hæstv. ráðherra til að kalla fleiri til en þær opinberu stofnanir sem hann talar um í svari sínu. Það þarf að spyrja kennara, það þarf að hafa samráð við foreldra og það þarf að tala við samtök þeirra, eins og Velvirk börn, en í þeim eru foreldrar barna sem hafa verið á þessum geðlyfjum en vilja nota aðrar aðferðir, t.d. breytt fæðuval. Og ég minni bara á frétt (Forseti hringir.) í Morgunblaðinu í dag þar sem bent er á lýsi sem mögulegt svar við þessum vanda.