131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[12:11]

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Umræðan sem hér fer fram er sprottin af kerfisbreytingu sem verið er að gera á einum af félagslegu þáttunum í uppbyggingu kynbótastarfs í nautgriparækt. Sú uppbygging á að verða hluti af samningum milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og það hefur leitt af sér umræðu um stöðu og horfur í landbúnaði almennt.

Hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti þeirri lífsskoðun að það ættu að vera fjölskyldubú sem byggðu upp grunnatvinnuvegina, í mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt og öðrum aðallandbúnaðargreinunum. Hann taldi að í því fælist framleiðsluöryggi og gæðavottun vörunnar sjálfrar og einnig orðspor hennar og ímynd út á við. Þessu er ég sammála, hæstv. ráðherra.

Hann nefndi að þessi ímynd væri mikilvæg nú þegar við sækjum á erlenda markaði með dilkakjöt og jafnvel líka að menn geti vonandi sótt á erlenda markaði með sérhæfðar mjólkurvörur á grundvelli sértækra gæða íslensku mjólkurinnar. Ég held einmitt að í þessu séu sóknarfærin sem við höfum verið að undirbyggja.

Þá hefur spunnist í umræðuna breyting sem er í undirbúningi á opinberum stuðningi eða grunnstuðningi við landbúnað í ýmsum löndum á grundvelli alþjóðlegra samninga sem nú standa yfir. Ég held að við eigum sem allar fyrst að skoða hvaða áhrif þær hafa á framleiðslu í okkar landbúnaði. Þeir samningar sem hafa verið gerðir við bændur hafa nánast alfarið byggt á magnþátttöku, þ.e. að greitt sé fyrir hverja framleidda einingu. Sá stuðningur er að sjálfsögðu ekki bara til framleiðenda heldur skilar hann sér líka í lækkuðu verði til neytenda þannig að þar er á ferðinni samfélagssáttmáli. Við viljum hafa öflugan og góðan íslenskan landbúnað. Við viljum líka að þær landbúnaðarvörur séu á hóflegu verði til neytenda og með þátttöku ríkisins tryggjum við hvort tveggja. Þetta gera flestöll lönd, ég tala nú ekki um nágrannalönd okkar þar sem jafnvel er gengið enn lengra heldur en við gerum hér.

Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum almennings til þess að viss samfélagsleg ábyrgð sé á landbúnaði hefur sýnt að menn vilja hafa hana. Þetta varðar okkur öll. Það varðar alla íbúa landsins hvernig landbúnað við stundum hér á landi. Við viljum búa við matvælaöryggi og gæði, við viljum halda landinu í byggð og hafa búskapinn umhverfisvænan og sjálfbæran. Ég held að þetta sé sú grunnhugsun sem flestir ganga út frá.

Ég leyfi mér að velta þessu upp og spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra, úr því að hann sjálfur opnaði þá umræðu, hvað er að gerast hjá okkur. Ég man ekki hvort það var hæstv. ráðherra, hv. þm. Kjartan Ólafsson eða hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem minntist á kvótaverðið, þetta háa verð á mjólkurkvótanum. Það er eftir því sem mér hefur skilist af nýjustu fregnum komið yfir 400 kr. á lítrann, 420–430 kr. var mér sagt að lítrinn kostaði núna, sem bændur sem vilja ná í framleiðslurétt verða að greiða. Horfum til þess sem bændur fá fyrir lítrann greiddan frá afurðastöð. Hæstv. ráðherra man þetta ábyggilega miklu betur en ég, en eru það ekki milli 80 og 90 kr. eða þess háttar? Er það ekki eitthvað nálægt því? (Landbrh.: Nokkurn veginn.) Hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) liðlega 80 kr. sem þeir eru að fá fyrir lítrann. Hver er samsetningin í því verði? Hver er beingreiðslan og hvað er það sem afurðastöðin greiðir? Er það ekki hlutfallið 60 á móti 40 eða eitthvað þess háttar? Hæstv. ráðherra veit þetta eðlilega miklu betur.

Hverjir standa þá undir þessu háa kvótaverði, þessum 420–430 kr. á lítrann af mjólk? Hver er að greiða það? Hvernig ætlar bóndinn að ná inn þeim fjármagnskostnaði sem greiða verður í þeim kaupum? Hann verður að greiða af þessum 420–430 kr. á lítra og það er engin smávegis fjárfesting fyrir rekstrargrunninn. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hann meti samkeppnisstöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu sem verður að greiða fjármagnskostnað af svo háu kvótaverði. Hver stendur straum af þessum kostnaði? Hver greiðir fjármagnskostnaðinn af þessu háa kvótaverði í mjólk? Það getur aldrei verið neinn nema neytandinn. Bóndinn getur yfir takmarkaðan tíma slegið lán og fjármagnað sig á lánum en þegar til kastanna kemur er það neytandinn sem borgar þetta háa kvótaverð. Það er ekki hægt að reka það öðruvísi. Hver er þá samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu með þessu áframhaldi?

Frú forseti. Mér finnst að landbúnaðarráðherra hafi ekki tekið á málunum að þessu leyti. Ég trúi því ekki að það hafi verið ætlun hans að við flytum áfram sofandi að þeim feigðarósi sem þetta kerfi hlýtur að bjóða upp á. Hefur ekki kvótaverð á mjólk hækkað um 100 kr. á lítrann eða meira á innan við ári? Það verður stöðugt erfiðara fyrir nýja bændur að kaupa framleiðslurétt. Það er hægt að slá lán en fjármagnskostnaðinn og afskriftirnar af þessum kvóta verður að borga. Hvert er kvótaverðið í Evrópu, í samkeppnislöndum okkar sem við erum að reyna að styrkja framleiðslu okkar til að vera samkeppnisfær við?

Frú forseti. Þetta er grundvallaratriði gagnvart í þeirri sátt, þeim samningi, sem ríkið, þjóðin, hefur gert með bændum um mjólkurframleiðsluna. Ég tel að þeir samningar sem þjóðin er sátt við að gera við bændur byggi á því að uppi verði haldið ákveðnu búskaparmunstri, byggt á fjölskyldubúum, því að landið sé í byggð og að hér sé framleidd góð og örugg vara.

Það sem gerst hefur upp á síðkastið er að einstakir stórir aðilar eru farnir að safna upp framleiðslurétti án þess að þeir nýti hann endilega á búum sínum. Þeir eiga orðið fleiri bú og safna framleiðslurétti, safna beingreiðslum, ríkisgreiðslum. Viðkomandi jarðir geta fallið úr ábúð og búskap þar hætt því að það er ekkert sem bannar, eftir að búið er að kaupa framleiðsluréttinn, að flytja hann á milli jarða. Til viðbótar koma síðan kerfisbundin uppkaup einstakra fjársterkra aðila á jörðum. Það er ekki verið að kaupa upp jörð eða jarðarpart fyrir frístundabústað eða til að stunda aðra starfsemi en landbúnað. Hér hafa orðið raðuppkaup á jörðum. Þegar þetta gerist hvort tveggja samtímis, jafnvel með íhlutun sömu aðila, þá er þeirri sátt ógnað, þeim samningi sem gerður var við mjólkurframleiðendur, við bændur. Mér finnst hæstv. ráðherra gera lítið í að bregðast við því.

Ég minni á að ég hef flutt tillögur á Alþingi sem lúta að þessum málum en þær hafa enn ekki verið teknar til umræðu. Þar hef ég lagt til, frú forseti, að sett væru takmörk við því hvað sami lögaðili geti verið handhafi mikils réttar til beingreiðslna. Ég held að það verði að setja þar einhver takmörk, eins og hæstv. ráðherra ýjaði reyndar sjálfur að. Það verður engin sátt um það ef stór hluti mjólkurframleiðslunnar fer á örfárra manna hendur. Við höfum séð hið sama gerast í svínaræktinni, þar sem svínakjötsframleiðslan var nánast komin á örfárra manna hendur. Öryggi neytenda og öryggi í framleiðslunni var orðið sáralítið og ef eitthvað kom fyrir í búrekstrinum og búin fóru á hausinn, ef kom upp sjúkdómur, þá var ekki hægt að afgreiða nægilegt magn framleiðslunnar á markaðinn. Út frá öryggissjónarmiðum og út frá búsetu- og framleiðslusjónarmiðum er þetta að mínu viti mjög hættuleg þróun. Ég hef lagt fram tillögu um að menn finni hámark þeirra beingreiðslna sem einn og sami lögaðili geti verið handhafi að þannig að ríkið fari ekki að senda beingreiðslur á örfáa bændur í landinu í mjólkurframleiðslu, með tilheyrandi óöryggi og áhættu í framleiðslunni.

Ég vil einmitt vitna til þess að búnaðarþing ályktaði nýverið og einnig í fyrra um þetta mál. Ég vildi nefna það, úr því að við erum komin út í þessa umræðu, að hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga var haldinn bændafundur á Svaðastöðum 21. janúar 2004. Sá fundur beindi, með leyfi forseta, eftirfarandi til búnaðarþings og búgreinafélaga, þar segir:

„Nú liggur fyrir að gera og/eða endurskoða samninga um rekstrarumhverfi fyrir nautgriparækt, sauðfjárrækt og loðdýrarækt. Í þeirri samningagerð telur fundurinn að megin markmið eigi að vera:

1. Að það fjármagn sem ríkið leggur fram verði notað til að viðhalda og efla byggð í sveitum landsins.

2. Stuðla að því að fjármagnið renni til framleiðslunnar á hverjum tíma og verði raunverulegar tekjur fyrir starfandi bændur.“

Í ályktun frá nýafstöðnu búnaðarþingi í mars 2005 var síðan áréttað enn skarpar að: „… sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.“

Bændasamtökin hafa ítrekað lagt áherslu á að í þessa vinnu verði farið. Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað líður því að landbúnaðarráðuneytið bregðist við ósk Bændasamtakanna um að finna hvar takmörk á bústærð eða rétti eins lögaðila til beingreiðslna eigi að vera? Það verður að gerast, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á áðan. Það verður engin sátt um það haldi áfram sem nú horfir. Þá sátt sem verið hefur megum við alls ekki rjúfa enda hefur þjóðin mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig landbúnað hún vill stunda.

Hið sama gildir líka um uppkaup á jörðum. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir var að hæla sér af því er keyrðar voru í gegn breytingar á ábúðar- og jarðalögum síðasta vor, keyrðar mjög hratt í gegn. Vissulega voru sumir þættir í þeim til bóta og eðlilegir en aðrir voru ekki ígrundaðir. (DrH: Það var ekkert keyrt, þetta mál.) Hv. þingmaður er eðlisrösk, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, og það skal ekkert af hv. þingmanni skafið en engu að síður var málið um ábúðar- og jarðalögin keyrt áfram allt of hratt og ekki ígrunduð sú staða sem við stöndum frammi fyrir varðandi breytta búskaparhætti.

(Forseti (JóhS): Forseti vill geta þess að áform voru um að fresta fundi kl. 12.30. Þess vegna spyr forseti ræðumann hvort hann eigi langt í land með að ljúka ræðu sinni þannig að við mundum þá fresta henni til hálfþrjú.)

Það er helst, frú forseti, að ég hefði viljað fá svör frá hæstv. ráðherra, úr því að þessi atriði eru komin inn í umræðuna.

(Forseti (JóhS): Ég geri ráð fyrir því að hæstv. landbúnaðarráðherra svari því þegar þar að kemur.)

Þá fresta ég bara ræðu minni, frú forseti.