131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[18:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra eigi að þakka fyrir hreinskilna umsögn. Þegar honum er bent á vandann af hreinskilni og trúmennsku eigi hann að þakka það, á hluti sem eru í ólagi og við vitum öll um. Hæstv. landbúnaðarráðherra veit náttúrlega upp á sig skömmina að hafa ekki sett nánari reglugerð um þá hluti. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég tel að menn eigi einmitt að þakka hreinskilnar umsagnir og taka þeim vel og af karlmennsku í stað þess að tala um að hér sé allt svo sérstakt og allt leiki í lyndi. Auðvitað er margt gott og fallegt og það er mjög gott, en það er einu sinni hlutverk eftirlitsmanna og embættismanna að benda á það sem miður fer. Duglegur landbúnaðarráðherra á að geta tekið leiðsögn og lagfært hlutina. Þannig á þetta að ganga. Hæstv. landbúnaðarráðherra á að vera ánægður að fá svona góða umsögn þar sem honum er bent á að hlutirnir séu ekki alveg eins og þeir eiga að vera.