131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í frumvarpinu er lagt til að einfalda mjög allt ferlið, hafa eina stofnun í staðinn fyrir tvær og það er kannski eðlilegt að þeir sem hafa starfað undir, vanist og byggt upp ákveðið kerfi hafi á móti því að breyta því kerfi sem þeir hafa byggt upp. Í ljósi þess þurfum við að skoða umsögn Samkeppnisstofnunar.

En hv. þingmaður talaði ekki um það sem ég spurði um, sérfræðingaveldið, hvort það sé ekki orðið hættulegt lýðræðinu að leita of mikið til þeirra sérfræðinga sem eru að framkvæma lög.

Svo kom hann ekki inn á hæfisskilyrði stjórnar, að það séu orðnir fáir einstaklingar ef við ætlum fyrir fram að útiloka menn frá stjórnarþátttöku af því að þeir gætu lent í máli sem Samkeppnisstofnun fjallaði um. Ég ætla að biðja hv. þingmann að nefna mér þá aðila sem ekki kæmu til, ynnu hvorki í háskóla né í stofnunum sem hugsanlega koma undir samkeppniseftirlit.