131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:29]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að ég, ásamt fleiri mönnum sem tjáðu sig eftir húsleit hjá olíufélögunum árið 2001, gerði athugasemdir við aðferðir við þá framkvæmd. Við gerðum ekki athugasemdir við tilefni rannsóknarinnar eða annað slíkt heldur töldum við að málsmeðferðarreglur og þær leiðbeiningar sem giltu um leitir af þessu tagi væru ekki fullnægjandi.

Síðan reyndi á ákveðna þætti í því máli fyrir dómstólum og Hæstiréttur taldi að samkeppnisyfirvöld hefðu farið að lögum í málinu þannig að ég geri ekki athugasemdir við þá niðurstöðu. En þessi húsleit sætti gagnrýni á sínum tíma vegna þess að í málum af þessu tagi, þegar opinberir aðilar beita valdi sínu, hljóta alltaf að koma til skoðunar spurningar um hvort beitt sé hóflegum aðferðum hverju sinni.

Varðandi aðra þætti vísa ég bara til ræðu minnar áðan. Ég tel að ekki sé verið að veikja lögin og tel alls ekki að þessi yfirvöld veikist. Það er þvert á móti verið að verja auknum krafti og auknum fjármunum í samkeppniseftirlit í landinu.