131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:33]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr mig ákveðinnar spurningar í þessu sambandi. Það væri einfaldast fyrir mig að svara þessu öllu neitandi vegna þess að ég er algjörlega ósammála þessu. Ég tel að í þeim breytingum sem hér er verið að leggja til felist ekki veiking. Ég get ekki séð að forstjóri ríkisstofnunar verði háðari ráðherra eða síður sjálfstæður í störfum sínum með því að búinn verði til ákveðinn stuðpúði, ef svo má segja, milli ráðherrans og forstjórans. Þar verður sett stjórn, verður til milliliður milli ráðherrans og forstjórans.

Í dag er það þannig að ráðherrann velur forstjórann og ráðherrann skipar samkeppnisráð, sem hefur ekki neitt yfir forstjóranum að segja. Hann skipar þar tvo hliðsetta aðila í stjórnsýslunni sem hafa samvinnu með tilteknum hætti.

Nú er verið að breyta þessu þannig að ráðherra skipar stjórnina en hefur ekki afskipti af ráðningu eða starfslokum forstjóra. Því hlutverki sinnir sérstök stjórn. Ég get ekki séð hvernig menn geta litið svo á að í því fyrirkomulagi finnist veiking á stöðu stofnunarinnar. Ég get ekki skilið það. Ég held að þvert á móti sé verið að auka faglegt sjálfstæði stofnunarinnar með þessum hætti ef eitthvað er.