131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[18:26]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á þá afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við vörum við því og mótmælum því að dómsvald sé framselt út fyrir landsteinana eins og hér er verið að gera. Í besta falli er um að ræða álitamál eða óvissu eins og fram kom í máli hv. formanns utanríkismálanefndar.

Ég leyfi mér að vísa í röksemdir sem fram hafa komið hvað þetta snertir frá fulltrúum þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í umræðu um samkeppnislög, í álit laganefndar Lögmannafélags Íslands og í álitsgerð frá Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögum, en þar er að finna mjög eindregin varnaðarorð gegn því lagaákvæði og þeim þingmálum sem hér hafa verið til umræðu.