131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:21]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er stór flokkur og þar er rúm fyrir margar skoðanir.

Varðandi niðurskurð til vegamála studdi ég hann, eðlilega, til að draga úr þenslu. Ég fór yfir þetta áðan þegar ég svaraði hv. þm. Jóni Bjarnasyni. (Gripið fram í.) En ég er að segja að menn þurfi að fara hér í þetta, og kannski verður þetta til þess að menn horfi öðruvísi til þessa svæðis í nánustu framtíð.

Hvar brennur eldurinn heitast? Það er hér, hér þar sem umferðin er langmest og það er hér sem bílarnir eru. (Gripið fram í.) Héðan koma tekjurnar að mestu leyti. Fólkið sem er hér, við, á rétt á þessum samgöngubótum. (Gripið fram í.) Út á það ganga tillögur mínar. Síðan verða náttúrlega aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að svara fyrir sig, í prívatsamtölum þá við hv. þingmann eða héðan úr þessum stól.