131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[01:38]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum samgönguáætlun og umræðan snýst langmest um vegamálin. Ég vil í ræðu minni fjalla um samgöngumál fyrst almennt.

Ég held að við þurfum rækilega að hafa í huga þegar við ræðum samgöngumál hvað við ætlum okkur, hvaða sess við ætlum að skipa samgöngunum í samfélagsþjónustunni. Í mínum huga eru samgöngur hluti af grunnalmannaþjónustu. Mér finnst að við ættum að byggja upp samgöngur í landinu öllu þar sem horft er til allra íbúa landsins á eins miklum jafnréttisgrunni og nokkur kostur er. Ég tel samgöngur vera það að komast leiðar sinnar, geta sótt atvinnu, geta sótt skóla, geta komist á milli staða og landshluta. Ég lít á þær nákvæmlega eins og aðra almenna grunnþjónustu, eins og fjarskiptin, símaþjónustu og aðra grunnþjónustu fyrir samfélagið. Því hlýtur það að vera meginmarkmið okkar að þessi þjónusta sé veitt einstaklingunum á jafnréttisgrunni um allt land sé þess nokkur kostur.

Ég geri ekki ráð fyrir því í raun að við viljum líta þannig á samgöngur að hægt sé að skipta þjóðinni í hina ýmsu hópa eftir því hvað hún eigi að hafa aðgang að góðum eða lélegum samgöngum. Viljum við það í sambandi við heilbrigðisþjónustuna? Viljum við að þjóðinni sé skipt í marga hópa hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Viljum við það? Ég held ekki. Eða menntun? Ég held að allir séu sammála um að kappkosta eigi að allir hafi jafnt aðgengi að menntun. Hvað með fjarskiptin og símann? Viljum ekki jafnt aðgengi að þessari þjónustu óháð búsetu eins og nokkur kostur er? Í nákvæmlega sama flokk setjum við samgöngurnar.

Þá komum við að hinum þættinum. Erum við ein þjóð í þessu landi eða ætlum við að fara að skipta okkur upp í margar þjóðir, í marga samfélagsflokka? Hver ætlar að standa hér og segja að þessi hópurinn eða þessi flokkur eigi að hafa þetta stig af þjónustu, hinn hópurinn annað sig af þjónustu og svo sá þriðji eitthvert allt annað? Hver ætlar að stíga fram og flokka þjóðina þannig? Ég trúi því ekki í raun að neinn ætli sér það. Ég trúi því ekki. En þá verðum við líka að láta athafnir fylgja þar bæði orði og huga. Þegar við ræðum samgöngumál hljótum við þess vegna út frá þeim forsendum sem ég hef hér nefnt að líta á okkur sem eina þjóð í einu landi og að hver íbúi hafi jafnan rétt til þessarar þjónustu, til þessa möguleika að njóta þeirrar grunnþjónustu sem samgöngur eru, óháð því hvar hann býr á landinu því enginn er í sjálfu sér öðru mikilvægari hvort sem hann býr í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri, Þórshöfn eða Hornafirði. Við erum öll jöfn. Það er nánast útilokað að fara að flokka hér íbúana eftir því hvort einn sé öðrum arðsamari. Við hljótum að hugsa um alla sem eina heild.

Ég segi þetta, frú forseti, vegna þess að í umræðu um samgöngumál, umræðu um grunnþjónustu og almannaþjónustu, megum við ekki tapa heildarsýninni. Við þurfum að halda heildarsýninni, halda í sameiginleg markmið, horfa yfir þjóðina alla, yfir landið allt og meta verk okkar og ákvarðanir með tilliti til þess. Mér finnst ástæða til að segja þetta vegna umræðunnar sem hér fer fram. Vissulega er auðvelt að ræða um að ein framkvæmd í samgöngumálum sé arðbærari en önnur, að íbúinn sem býr við annan endann á veginum sé arðbærari en hinn. Mikið lifandis ósköp er auðvelt að falla í þá gryfju. En ef við gerum það þá förum við villir vegar. Þá erum við komin frá þeirri heildarsýn og því markmiði að líta á landið og fólkið sem eina heild.

Við getum rætt um einstakar framkvæmdir og annað þess háttar innan þeirrar heildarmyndar. Við ræðum um þær í nefndum og í undirbúningi og gerð þessarar áætlunar. En sé það gert í þessari heildarsýn þá munum við ná um það góðu samkomulagi.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því hvers konar samgöngur við viljum byggja upp. Meginsamgöngur okkar eru um þjóðvegina, í lofti og líka á sjó. Við þurfum að huga að því hvernig samgöngurnar falla að byggðinni í landinu. Byggðin hefur verið meðfram ströndum landsins og hefur byggst upp í námunda við fiskimiðin, meðfram ströndum landsins. Þótt fiskimiðin skipti ekki sama máli og áður þá koma önnur sjónarmið inn, náttúrufegurð, náttúruauðlindir, ferðaþjónusta og fleira.

Ég vil þess vegna draga fram þátt siglinganna. Ísland og íslenska þjóðin hefur verið siglingaþjóð allt frá upphafi, allt frá því að menn námu hér land. Samgöngur á sjó hafa skipt okkur meginmáli. Þær gera það enn. Við sækjum stóran hluta lífsbjargar okkar á sjó á bátum með flutningum til og frá landinu. En á síðustu tímum hafa strandsiglingar, siglingar meðfram ströndum landsins, skroppið saman. Skipulagðar strandsiglingar eru að hverfa. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég tel að sá þáttur hverfi út gegn sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar. Ég tel að í heildarsýn okkar í samgöngumál þá eigum við nú ekki síst að skoða og taka á siglingunum meðfram ströndum landsins áður en það verður um seinan.

Ég er ekki viss um að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að setja alla þá flutninga á vegina sem áður voru á sjó. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja uppbyggingu strandsiglinga sem nauðsynlegs hluta af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra undirbúi með gerð áætlana og framlagningu frumvarpa að ríkið geti í framtíðinni tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti leggja mat á kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land og skiptingu siglingaleiða sem bjóða á út.“

Þetta er tillaga okkar og við viljum að slíkir kostir verði skoðaðir rækilega. Af þeim áætlunum eða athugunum sem hafa verið gerðar má að mínu viti ráða að strandsiglingar séu nauðsynlegur þáttur í samgöngum okkar. Þetta vil ég að verði skoðað sem hluti af heildarmyndinni í samgöngumálum okkar.

Það má ræða mikið um vegi og framlög til vegaframkvæmda. Það hefur verið gert hér í kvöld og í nótt og einnig í fyrri umræðu. Ég vil aðeins nefna að fyrst var lögð fram langtímaáætlun í samgöngumálum til ársins 2014 fyrir þremur eða fjórum árum síðan, bæði skammtíma- og langtímaáætlun. Hún gerði ráð fyrir ákveðnum ákveðnu fjármagni til þeirra framkvæmda.

Hér voru kosningar árið 2003. Fyrir þær kosningar var lögð fram áætlun um ákveðin verkefni og ákveðið fjármagn. Með þau loforð gengu stjórnarflokkarnir til kosninga. Strax eftir kosningar var farið að skera það niður. Nú stöndum við frammi fyrir því að á þriggja ára tímabili er búið að skera þá samgönguáætlun niður, aðallega vegáætlun, um líklega 7–8 milljarða kr. Þessi ár hefur ríkissjóður varið hvað minnstum hluta af heildarþjóðartekjum til vegamála. Við stöndum einnig frammi fyrir því að æ minni hluti af fjármagni ríkisins rennur til stofnkostnaðar, til fjárfestinga. Hann er með lægsta móti nú frá því sem verið hefur um langt skeið. Þessi stefna hlýtur einhvers staðar að koma niður. Við höfum gagnrýnt þetta á þingi, gagnrýnt þau vinnubrögð að lögð skuli fram áætlun sem menn vissu jafnvel fyrir fram að ekki yrði staðið við. Svona á ekki að vinna. Í kjölfarið koma auðveldlega upp deilur, deilur um hvað eigi að skera niður af þeim verkefnum sem áætlað var að ráðast í og þá hljótum við að lenda í stöðugum ógöngum.

Frú forseti. Í sjálfu sér er enginn ánægður með þá vegáætlun sem hér liggur fyrir. Það hefur verið nefnt að skorið hafi verið niður vegafé til Vestfjarða miðað við þá áætlun sem gerð var um 300 millj. kr. Þetta nefna menn, hver þingmaður, úr sínu kjördæmi. Menn nefna líka að þessi framkvæmd sé röng en ekki önnur og um það getum við alltaf deilt. Ég get tekið undir það að mér finnast sumar framkvæmdir á röngum stað, forgangsröðin röng og að gera ætti aðra hluti í staðinn. Ég get rakið ótal dæmi þess, bæði stór og smá. Ég ætla samt ekki að gera það, frú forseti. Að þessu sinni hafa menn rætt nokkuð ítarlega þær tillögur sem fram eru komnar. Þetta eru tillögur sem meiri hlutinn hefur unnið og ber ábyrgð á. Meiri hlutinn á Alþingi ber ábyrgð á þeim niðurskurði sem beitt hefur verið miðað við gildandi vegaáætlun. Meiri hlutinn ber ábyrgð á því hvernig úr þeim fjármunum er spilað.

Flestar af þeim framkvæmdum sem lagðar eru til eru brýnar og góðar og ég styð þær. En ég get tínt til margar aðrar sem ég hefði talið að koma ættu framar, eins og ég sagði áðan. Þannig er það og sumar eru jafnvel rangar. Niðurstaðan sem við fjöllum hér um er unnin á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin og meiri hlutinn bera ábyrgð á afgreiðslu hennar hér.

Ég vil í lokin, herra forseti, undirstrika þá grundvallarafstöðu og hugmyndafræði í samgöngumálum að þau snúast um grunnalmannaþjónustu fyrir landið og þjóðina alla. Við eigum ekki að skipta okkur í landsbyggðarþingmenn og þéttbýlisþingmenn eða aðra flokkun á þingmönnum. Þetta er verkefni okkar allra. Við erum allir þingmenn þessarar þjóðar, hvar sem fólkið býr. Samgöngur eru grunnþáttur og grunnstoð samfélags okkar og þar eigum við ekki að skipast í hópa og vega og meta íbúa, jafnvel til verðs, hvern á móti öðrum. Guð forði okkur frá slíkum hugsunarhætti.

Herra forseti. Ég ítreka það að þessi vegáætlun er unnin og lögð fram á ábyrgð meiri hlutans. Þótt það séu mörg atriði í henni sem ég get í sjálfu sér tekið undir þá eru önnur þannig að ég hefði talið að önnur verkefni væru brýnni en þau. Svona er þetta. En ég undirstrika að heildarsýnin á samgöngumálin ætti að vera sú að þau snúist um grunnalmannaþjónustu þar sem allir eigi að vera jafnir. Við berjumst fyrir því að allir eigi þar jafnan rétt.