131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Börn og unglingar með átröskun.

661. mál
[10:43]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög flókinn sjúkdómur, alvarlegur eins og hann er, og það er engin einhlít ástæða fyrir því að sjúkdómurinn brýst fram. Þó er alveg ljóst að mikið áreiti er í umhverfi barna og hvati til þess að líta á útlit líkamans, sem og stöðug dýrkun á mjög grönnum líkömum sem birtast í auglýsingum, kvikmyndum og fleiri fyrirmyndum sem höfða til barna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa það inni í þeirri mynd sem við er að glíma þegar kemur að meðferðarúrræðum að horfa til umhverfisins og athuga hvort ekki sé rétt að reyna með öllu móti að sporna við þeirri þróun sem hefur verið að nota börn sem fyrirmyndir, allt að því sem kynlífsfyrirmyndir líka, og höfða til kynhneigðar sem ruglar sjálfsvitund barna.

Þessi þróun er í gangi allt í kringum okkur en það er mikilvægt að vera vakandi og reyna að vekja þjóðina til umhugsunar um það hvert við stefnum með þeim fyrirmyndum sem við höfum gagnvart börnunum, bæði sem foreldrar og sem birtast í umhverfinu. Megrunaræðið sem grípur um sig, þótt ekki væri nema einu sinni á ári, eftir áramótin, hefur líka áhrif á börnin.

(Forseti (SP): Forseti vill taka það fram að þótt málið sé mikilvægt mega hv. þingmenn einungis tala tvisvar í fyrirspurnatíma. Fyrirspurninni er svarað og vel það.)