131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:18]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir með hv. þingmönnum að það er auðvitað mjög mikilvægt að fjárhagur sveitarfélaganna birtist með raunverulegum hætti í reikningum þeirra.

Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals fyrr vil ég upplýsa að eftirlitsnefnd um fjárreiður sveitarfélaganna tekur tillit til skuldbindinga sveitarfélaganna við mat á fjárhagsstöðu þeirra en þá er mikilvægt að rétt sé farið með og rétt fært af hálfu sveitarfélaganna og í samræmi við það sem almennt gerist og alþjóðlegar reikningsskilavenjur kveða á um, eins og ég rakti fyrr.

Hæstv. forseti. Ég ítreka það og tek undir með hv. þingmönnum að það skiptir máli að reikningar sveitarfélaganna gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu þeirra. Ég vonast til, eins og fyrr sagði, að sú auglýsing sem nú hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar skýri þessar reglur nokkuð og geri sveitarfélögunum kleift að færa bókhald sitt eins og réttast er og gleggsta mynd gefur.