131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

798. mál
[12:07]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum voru keyptir tveir bílar til gegnumlýsingar á vörum og er annar þeirra í þjónustu Tollgæslunnar í Reykjavík og hinn á Keflavíkurflugvelli. Talið er að þessir bílar hafi skilað nokkuð góðum árangri. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir fjárveitingu til kaupa á nýju gegnumlýsingartæki til tolleftirlits með póstsendingum þannig að fyrir hendi eru tiltekin tæki í þessu skyni. Hins vegar hygg ég að hv. þingmaður sé kannski ekki síst að spyrja um stærri bíla eins og keyptir hafa verið sums staðar á Norðurlöndum sem geta gegnumlýst gáma í heild sinni, tekið sem sagt stærri einingar og gegnumlýst þær en þar er um að ræða miklu stærri og dýrari tæki en nú eru hér fyrir hendi. Þess vegna þarf að taka vörur í gámi í núverandi gegnumlýsingartæki í gegn í smærri einingum.

Ég get upplýst að eftir því sem best er vitað hafa Norðmenn fest kaup á tveimur slíkum bílum til gegnumlýsingar á gámum í heilu lagi. Þeir hafa verið keyptir frá Kína og kosta um það bil 150 millj. kr. stykkið. Þar fyrir utan er áætlað að rekstrarkostnaður á svona bíl miðað við fulla nýtingu sé um það bil 30 milljónir. Danir hafa keypt sams konar bíl frá Kína, Svíar keyptu bíl frá Bandaríkjunum en það er enn þá lítil reynsla komin á þess konar bíla í þessum löndum. Tollyfirvöld okkar munu fylgjast grannt með því hvað er að gerast í þeim málum á Norðurlöndunum enda er mikið samstarf milli tollyfirvalda í þessum löndum eins og kunnugt er. Þetta er að sjálfsögðu mikil fjárfesting. Þess vegna þykir rétt að meta heildstætt þá tækni sem fyrir hendi er og reyna að finna þær tæknilausnir sem best henta íslenskum aðstæðum.

Ég tek eindregið undir það sem hv. þingmaður sagði og er kjarninn í hans fyrirspurn að við eigum að beita öllum tiltækum ráðum til að halda aftur af innflæði fíkniefna hingað í land og munum að sjálfsögðu reyna að nýta okkur tæknina sem best í því efni en þá verðum við auðvitað að vega og meta í hvert skipti hversu víðtækar fjárfestingar við getum ráðist í í því efni.