131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:11]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Gott kvöld, góðir Íslendingar.

Kjörtímabilið sem hófst eftir alþingiskosningarnar og haldnar voru fyrir réttum tveimur árum er nú hálfnað. Þetta hefur ekki verið neitt sældartímabil fyrir stjórnarflokkana. Báðir berjast þeir í bökkum en þó einkum og sér í lagi Framsóknarflokkurinn. Skoðanakannanir benda til að ríkisstjórnin sé nú óðum að tapa stuðningi meðal kjósenda og ekki er furða því fátt hefur orðið henni að gagni á undanförnum missirum. Mistökin eru einfaldlega of mörg. Ég gæti haldið langa ræðu um þau en í kvöld ætla ég að takmarka mig við byggðamál.

Það er skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að land án byggðar sé miklu minna virði en land þar sem mannlíf fær þrifist í sátt við náttúruna í byggðum þar sem fólk er ánægt og því líður vel. Í slíkri sýn felst ekki nein rómantísk mynd draumórafólks. Ísland er gott land og fallegt land og það á að vera takmark okkar allra að sem flestum líði hér vel eins óháð búsetu og kostur er.

Að mati okkar í Frjálslynda flokknum er mikil þversögn fólgin í því að byggðirnar okkar skuli endalaust þurfa að heyja varnarbaráttu fyrir tilveru sinni á sama tíma og möguleikar á lausnum í samgöngum, fjarskiptum og til afþreyingar verða sífellt fjölbreyttari. Við sjáum sóknarfærin víða. En tekst okkur að nýta þau sem skyldi? Ferðamennskan lofar góðu. Landbúnaðurinn hefur gengið í gegnum ákveðna örðugleika og þar er þörf á nýjum hugsunarhætti. Sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum gríðarlegar breytingar með tilkomu hins svokallaða kvótakerfis fyrir rúmum 20 árum síðan. Árangursleysi þessa fiskveiðistjórnarkerfis er mikil vonbrigði fyrir okkur flest. Kvótakerfið hefur í raun verið gríðarstór tilraun þar sem menn hafa blandað saman kenningum í hagfræði og fiskifræði. Ekkert þjóðfélag í heiminum hefði gert slíka tilraun áður en við fórum að fikta við þetta. Ég held að engum eigi eftir að detta í hug að reyna að apa eftir það sem við höfum gert vitandi að okkur hefur mistekist í öllum aðalatriðum.

Kvótakerfistilraunin hefur ekki reynst nothæf til að viðhalda og treysta byggð í allflestum sjávarbyggðum landsins. Bátum og skipum sem áður sköpuðu grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnulíf og þar með mannlíf á þessum stöðum hefur fækkað mjög. Sjávarútvegsfyrirtækjum hefur fækkað. Þau sem eftir eru hafa stækkað og skuldir þeirra eru í sögulegu hámarki. Fyrirtækjum sem sett voru á opinn markað fyrir um tíu árum hefur fækkað ört með skuldsettum yfirtökum fárra einstaklinga. Þar með hefur sjálfkrafa fallið á brott sú röksemd að þjóðinni allri væri kleift að eiga hlutdeild í hinni miklu auðlind sem er fiskstofnarnir við Ísland, með því einfaldlega að eiga hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum. Alvarlegast er þó að við höfum ekki náð settum markmiðum í uppbyggingu okkar mikilvægasta og dýrmætasta nytjastofns sem er þorskurinn. Fyrstu niðurstöður nýjustu rannsókna Hafrannsóknastofnunar eru sláandi því þær benda til að á næstu árum bætist við margir lélegir þorskárgangar í veiðina. Þetta er ávísun á að kvótar verði áfram í sögulegu lágmarki. Hér er á ferðinni mjög alvarlegt vandamál. Það snýst að sjálfsögðu um miklu meira en fiskveiðar. Við erum að tala um lífsgrundvöll sjávarbyggðanna allt umhverfis landið og þar með byggð í landinu okkar.

Við í Frjálslynda flokknum höfum farið yfir stefnu okkar um fiskveiðistjórn sem við kynntum fyrst í kosningabaráttunni fyrir rúmlega tveimur árum. Við teljum að þegar breyttu veiðikerfi hefur verið komið á megi með byggða- og flotatengdri útfærslu koma við samkeppni á nýjan leik eins og áður var. Nýir og hæfir einstaklingar verða að fá að komast að í greininni á jafnréttisgrundvelli. Þar gildir einu hvort um er að ræða veiðar, vinnslu eða rannsóknir. Það verður að breyta um áherslur, allar áherslur í fiskveiðistjórn hér við land, draga t.d. úr loðnuveiðum, endurskoða nýtingu þorskstofnsins auk annarra bolfiskstofna, einnig nýtingu fiskimiðanna á grunnslóð allt í kringum landið. Nýir menn verða að taka við af þeim sem ráða ferð í dag og eru orðnir allt of flæktir í eigin mistök, innbyrðis tengsl og hagsmunagæslu í kerfinu eins og það er uppbyggt og útfært í dag.

Fiskveiðistjórnin undanfarinn aldarfjórðung hefur verið í höndum ráðherra núverandi stjórnarflokka. Hún er röð mistaka og nú er fullreynt. Við, íslenska þjóðin, fólkið sem byggir þetta land, höfum ekki efni á nýjum aldarfjórðungi af mistökum sömu manna, sömu stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.