131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:35]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru fleiri mál sem ég sakna að eru ekki á dagskránni. Það vekur athygli mína að mál sem var á dagskrá á mánudag, staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, sem varðar meðferð á vörslusköttum, er ekki á dagskrá. 1. flutningsmaður er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og samflutningsmenn hans eru úr öllum flokkum á þingi, þar á meðal sá sem hér stendur. Hér er á ferðinni mál sem ég tel vera mikið réttlætismál og ábyrgðarhluti ef það verður ekki afgreitt núna fyrir þinglokin. Hér er blettur á löggjöfinni sem nauðsynlegt er að þvo af. Ég hvet til þess að við sameinumst um það úr öllum flokkum að greiða götu þessa máls þannig að það verði afgreitt núna fyrir þinglokin.