131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[10:57]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um 1. gr. í mjög veigamiklu frumvarpi sem er hluti af þrennum lögum sem eiga að mynda nýja umgjörð um eftirlit með samkeppni á Íslandi.

Við erum að greiða atkvæði um einfaldara, skilvirkara og þar með hraðvirkara eftirlit með samkeppni sem mun koma öllu atvinnulífi til góða og skila neytendum lægra vöruverði og betri þjónustu. Skorið er á tengsl stjórnmála og eftirlits eins og unnt er og stuðlað að samræmdara eftirliti með samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu frumvarpi og þeim frumvörpum sem við ræðum á eftir er verið að skerpa á neytendavernd og byggja upp grunn fyrir enn betra viðskiptasiðferði öllum til hagsbóta. Ég segi já, herra forseti.