131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[11:54]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Með frumvarpinu og þeim breytingum sem hafa verið gerðar er verið að samræma ákvæði um endurgreiðslu vegna sérfræðiþjónustu og setja endurgreiðsluhlutfall og réttindi í reglugerð. Það er villandi að tala um samræmingu við ákvæði í lögum um aðra sérfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem enginn samningur er í gildi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og tannlækna. Því tel ég að það hafi verið rétt að fresta formbreytingu, þ.e. að færa endurgreiðsluhlutfall af tannlæknakostnaði úr lagatexta yfir í reglugerðarákvæði þar til samningur við tannlækna er í höfn.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar auknum réttindum aldraðra, langsjúkra og öryrkja hvað varðar fjölgun meðferðarúrræða frá því sem verið hefur til að bæta bit og munnheilsu aldraðra og öryrkja eins og fram kemur í kynningu á reglugerð sem birt er með frumvarpinu. En til að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar þarf að auka enn frekar framlög til tannlækninga og tannverndarmála þar sem gjaldskrá ráðherra hefur ekki fylgt verðlagshækkunum. Útgjöld heimilanna vegna tannlækninga hafa hækkað verulega og er nú svo komið að margar fjölskyldur hafa ekki efni á að veita sér sjálfsagða tannlæknaþjónustu. Haldi þessi þróun áfram er nær víst að markmið heilbrigðisáætlunarinnar um tannheilbrigði náist ekki og að útgjöld vegna þessa komi fram síðar, bæði í ríkisútgjöldum og hjá einstaklingum.

Með tilliti til þess að felldar voru breytingartillögur um að halda endurgreiðsluhlutfalli úr sjúkrasjóði inni í lagatexta, samanber tillögu á þskj. 1321, skorar Vinstri hreyfingin – grænt framboð á hæstv. ráðherra að nota reglugerðarheimildir til frekari réttarbóta fyrir aldraða og öryrkja. Í því trausti munum við styðja afgreiðslu málsins.