131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:53]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eiginlega ekki andsvar, þetta var meðsvar, en ég ætla samt að bregðast við því.

Auðvitað tekur vinnulagið mið af reglum sem gilda. Mér hefur oft fundist starfið á Alþingi ganga svolítið mikið út á ákveðna skiptingu í póla, þ.e. í pólana með eða á móti, svart eða hvítt, og umræðan er ekki lengur vitræn eða rökrétt. Ef góð mál koma frá stjórnarandstöðu segja sumir að ekki megi afgreiða þau, og sama er með góð mál frá ríkisstjórn, þá stendur stjórnarandstaðan á móti þeim þó að hún sé kannski í hjarta sínu með þeim. Þetta upplifir maður aftur og aftur. Ég held að slík pólarísering eða það að skiptast svona í tvo hópa sé mjög slæmt fyrir umræðuna og fyrir framgang mála.

Ég vildi gjarnan taka undir með hv. þingmanni um að við þurfum að vinna að því að breyta þessu skipulagi. Því var síðast breytt fyrir 14 árum og það er kannski kominn tími til að skoða þetta enn einu sinni.