131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:00]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum þessi mál er óhjákvæmilegt að við fjöllum líka um mikilvægi stjórnmálaflokkanna í okkar lýðræðislega fyrirkomulagi. Þetta er nauðsynlegt að gera vegna þess að mjög mikið hefur borið á því að menn séu að sproksetja stjórnmálaflokkana og gera lítið úr tilgangi þeirra og hlutverki í lýðræðislegu samfélagi.

Hlutverk stjórnmálaflokkanna er hins vegar gríðarlega mikilvægt. Það er m.a. það að setja fram skoðanir í heilsteyptu formi þannig að fólk geti tekið afstöðu til skýrra hugmynda. Menn hafa hins vegar verið að tala um stjórnmálaflokkana undir því ljósi að þeir séu nánast eins og spillt öfl fulltrúa sérhagsmuna en það er auðvitað ekki þannig. Þetta er hluti af þeim lýðræðislegu stofnunum sem búa til það samfélag sem við viljum starfa innan. Þess vegna megum við ekki tala um stjórnmálaflokkana undir þessum neikvæðu formerkjum. Minnkandi áhugi á stjórnmálum er þvert á móti ákveðið hnignunarmerki.

Oft hefur verið rætt um hvernig styðja bæri við starfsemi stjórnmálaflokkanna. Fyrir 10 árum var sett niður nefnd sem fór yfir þetta og í henni sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Það varð einróma niðurstaða þessarar nefndar að ekki bæri að setja sérstaka löggjöf um fjármagn stjórnmálaflokkanna þá. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að reyna að skríða í eitthvert skjól og segja að það hafi verið gert undir einhverjum hótunarformerkjum. (Gripið fram í.) Þessi varð einfaldlega niðurstaða nefndarinnar og þetta er niðurstaða sem við höfum síðan búið við og höfum stuðst við á þeim árum sem síðan eru liðin.

Það er hins vegar eðlilegt að leita eftir því að stjórnmálaflokkarnir komi sameiginlega að þessari vinnu, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gert. Það væri t.d. mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið, ríkisvaldið, ríkisstjórnin, hefði sérstakt frumkvæði í þessum efnum án þess að það væri gert í góðu samráði við stjórnmálaflokkana. Þess vegna er það eðlilegt sem hæstv. forsætisráðherra leggur hér til, að þessi mál verði sett í nefnd sem fari yfir þau.

Þá mega menn heldur ekki gleyma því að nú þegar fer fram margs konar eftirlit með starfsemi stjórnmálaflokkanna. Ég vek t.d. athygli á því sem kemur fram í þessari skýrslu hæstv. forsætisráðherra að um 300 millj. kr. á ári fara til stjórnmálaflokkanna héðan frá Alþingi, úr fjárhirslum ríkisins. Auðvitað hefur líka eftirlitsstofnunin sem heyrir undir Alþingi, Ríkisendurskoðun, margs konar aðkomu að bókhaldi stjórnmálaflokkanna af þessum ástæðum. Það má ekki gera lítið úr því að þar með er auðvitað heilmikið eftirlitshlutverk sem við höfum búið til, hv. alþingismenn, með ákvörðunum okkar um þessa eftirlitsstofnun og með ákvörðunum okkar um að stórauka framlög til stjórnmálaflokkanna, þ.e. um 60% á fimm árum. Það er heilmikill peningur. Síðan eru stjórnmálaflokkar, eins og aðrir auðvitað, undirorpnir alls konar öðru eftirliti, skatteftirliti og þar fram eftir götunum.

Síðan hafa menn mjög mikið talað um að stjórnmálaflokkarnir eigi að opna bókhaldið. Þetta er út af fyrir sig athyglisverð umræða en við skulum hins vegar skoða hvernig menn hafa gert þetta, hvernig þeir stjórnmálaflokkar sem hafa hæst galað í þessum efnum hafa unnið að þessu. Þeir hafa gert það með þeim hætti t.d. að þeir hafa opnað á bókhald sitt og sýnt hvaða aðilar hafa borgað 500 þús. kr. eða meira. Þetta er hreinn kattarþvottur, hrein sýndarmennska. Við vitum að ef menn hafa áhuga á því að komast fram hjá þessu gera menn það auðveldlega.

Tökum stóru viðskiptablokkirnar. Á bak við þær eru starfandi tugir lögaðila, tugir fyrirtækja. Halda menn að það sé einhver vandi, vilji menn koma í veg fyrir að það sjáist hvaða fyrirtæki styðja menn, að gera það þannig að þessar viðskiptablokkir dreifi þá framlögum sínum á einstök fyrirtæki sem standa á bak við viðskiptablokkirnar? Þannig er það auðvitað ef menn hafa áhuga á því að koma í veg fyrir að þetta sjáist. Þess vegna er augljóst mál að ef menn ætla að ganga þessa leið, opna bókhaldið með einhverjum hætti, verða menn að ganga miklu lengra, menn verða að sýna miklu meira á spilin sín en ekki vera með þessa dæmalausu sýndarmennsku sem hefur einkennt umræðuna og hefur auðvitað verið þess eðlis að menn hafa reynt að hvítþvo sjálfa sig og sagt síðan: Ja, sjáið hvað ég er miklu betri en allir hinir. Það er ekki þannig. Þá er auðvitað miklu eðlilegra að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, spyrja spurningarinnar: Kemur til greina að stjórnmálaflokkarnir hætti yfir höfuð að þiggja framlög frá fyrirtækjunum?

Í annan stað höfum við reynslu af lagasetningu frá öðrum þjóðum og hún er ekki að öllu leyti góð. Það er líka hlutur sem ég tel að þessi nefnd sem nú á að fara að setja á laggirnar verði að velta fyrir sér. Hvaða áhrif hefur lagasetning haft í einstökum ríkjum? Hvaða áhrif hefur t.d. lagasetningin haft í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ítalíu — löndum þar sem alls konar fjármálaleg misferli hafa verið að koma upp í tengslum við stjórnmálaflokkana? Þurfum við ekki t.d. að velta fyrir okkur áhrifunum á hið lýðræðislega fyrirkomulag þegar stjórnmálabaráttan, eins og t.d. í Bandaríkjunum, er hætt að fara fram nema að nokkru leyti gegnum stjórnmálaflokkana? Það eru einhverjir óskilgreindir hagsmunaaðilar, þrýstihópar, úti í bæ sem ekki hafa sótt vald sitt til fólksins í landinu, eins og við höfum þó gert, sem eru farnir að ráða stjórnmálabaráttunni. National Rifle Society — ætli það félag hafi sótt vald sitt til fólksins í Bandaríkjunum? Ekki aldeilis, eða allar þessar stóru stofnanir. Við þurfum þá ósköp einfaldlega að horfa til þessara hluta allra saman. Það þýðir ekki að reyna að fara af stað með einhverjum hamagangi og látum og láta eins og þessi mál séu einföld. Þau eru það ekki og þess vegna eigum við að skoða þessi mál og reynslu annarra þjóða líka af svona lagasetningu.

Ég þekki t.d. líka til í Þýskalandi. Þar eru þessir stóru flokkar með heilmikil samtök á bak við sig, Konrad-Adenauer-Stiftung, sem hafa verið að boða til funda og eru í stórri stjórnmálabaráttu til hliðar við kristilega demókrata. Sambærilegt er hjá sósíaldemókrötum. Alls þessa þurfum við auðvitað að spyrja og svo þurfum við líka að velta því fyrir okkur sem hæstv. forsætisráðherra velti upp. Auðvitað megum við ekki setja fram reglur sem gera það að verkum að t.d. þátttaka almennings í því að styðja við bak stjórnmálaflokka minnki því að ekki viljum við hafa það þannig að stjórnmálaflokkarnir verði algerlega reknir af framfærslu almennings í gegnum ríkiskassann. Það hlýtur að vera háskaleg staða sem upp er komin, a.m.k. fyrir stjórnmálaflokkana, fyrir löggjafarvaldið (Forseti hringir.) og fyrir það aðhald sem t.d. stjórnmálaflokkar eiga að veita (Forseti hringir.) ríkisstjórninni og stjórnarmeirihluta hverju sinni.