131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:21]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þessa viðleitni hennar og margvíslega aðra viðleitni undanfarin ár og áratugi til að bæta siðferðið í stjórnmálum og í fjármálum stjórnmálaflokkanna. Ég hygg að enginn Íslendingur efi heilindi hv. þingmanns í þeirri baráttu og viðleitni, jafnsamkvæm sjálfri sér og hún hefur í henni verið.

Um skýrslu hæstv. forsætisráðherra er það að segja að hún er heldur rýr í roðinu. Þar er annars vegar reynt að skýla sér á bak við niðurstöðu einhverrar nefndar sem starfaði á síðustu öld og hins vegar er málinu vísað áfram í aðra nefnd. Það er alls ekki nóg, hæstv. forætisráðherra, við verðum að tala skýrt. Við fáum yfir 1 millj. kr. hvern virkan dag í framlög úr sjóðum almennings, stjórnmálaflokkarnir, og okkur er engin vorkunn í því að gefa út um það strax yfirlýsingar að við höfnum hærri framlögum frá fyrirtækjum og sérhagsmunaaðilum og felum Ríkisendurskoðun eftirlit með því að því sé framfylgt. Meðan svo er ekki starfar Alþingi í skugga, í skugga leyndar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Í leyndinni þrífst spillingin best.

Hér tökum við mikilvægar ákvarðanir, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi áðan, um mikla hagsmuni og það er mikilvægt að við tökum af öll tvímæli um að hér séu annarleg sjónarmið uppi, enda hygg ég að þau séu ekki uppi. Til þess þurfum við að hafa reglur og þó að það sé rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að hægt sé að fara í kringum þær verður fjármálahneyksli í stjórnmálum eins og í Þýskalandi sem hann vísaði til einmitt vegna þess að þar gilda reglur sem eru brotnar. (Forseti hringir.) Á Íslandi getur í dag ekki orðið fjármálahneyksli í stjórnmálaflokki vegna þess að það eru engar reglur til að brjóta.

(Forseti (ÞBack): Ég vil koma þeirri ábendingu til hv. þingmanna að beina orðum sínum til hæstv. forseta.)