131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[14:43]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. formaður samgöngunefndar Guðmundur Hallvarðsson hefur mælt fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en gat ekki stutt þetta nefndarálit. Ég flyt auk þess við það breytingartillögur.

Eins og þingmaðurinn gerði grein fyrir snýst frumvarpið um það að taka upp almennt hertari reglur á flugvöllum og í flugþjónustunni. Margt af því sem þarna er á ferðinni má segja að sé svo sem eðlilegt og annað tæknilegs eðlis. Það sem ég geri fyrst og fremst athugasemdir við er í 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um hergögn og vopnaða verði.

Þar segir í 1. mgr.:

„Hergögn má eigi flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra eða þess sem hann felur leyfisveitinguna samkvæmt reglum þar um.“

Ég vek athygli á því að þarna er verið að rýmka þá heimild sem þegar er fyrir í lögum með því að gefa samgönguráðherra heimild til að framselja þetta vald þar sem bætt er við gildandi lög að fela megi leyfisveitinguna öðrum. Þessu er ég fullkomlega andvígur.

Síðan segir áfram: „Samgönguráðherra setur fyrirmæli um hvað telst hergögn og veitir almenna undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar í samráði við dómsmálaráðherra.“

Breytingartillaga mín lýtur að því, frú forseti, að hergögn megi ekki flytja með íslenskum loftförum, bann þetta eigi ekki við um loftför Landhelgisgæslu Íslands eða íslenskra lögregluyfirvalda og jafnframt setji samgönguráðherra fyrirmæli um hvað teljist hergögn. Ísland er herlaust land og það er skoðun mín að Ísland eigi með engum hætti að taka þátt í hernaði meðal annarra þjóða, það séu hvorki forsendur fyrir því að Ísland sem vopnlaust land, friðarland og boðberi friðar taki þátt í hernaði né hergagnaflutningum. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu sem kveður á um að hergögn megi ekki flytja í íslenskum loftförum.

Hin breytingartillagan mín lýtur að vopnuðum verði um borð í íslensku loftfari. Hér er verið að festa enn frekar í lögum og rýmka ákvæði um að vopnaðir verðir geti verið um borð í íslenskum loftförum í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, segir hér. Ég er fullkomlega andvígur því að með þessum hætti sé heimilað að vopnaðir verðir verði í íslenskum almenningsflugvélum. Komi til slíks með einhverjum hætti er það hluti af alþjóðlegum samningum, fjölþjóðasamningum sem Íslendingar eru þá aðilar að en með engum hætti er hægt að fallast á að íslensk stjórnvöld, samgönguráðherra eða dómsmálaráðherra, geti samþykkt það sérstaklega fyrir hönd íslenskra flugyfirvalda.

Á fund nefndarinnar komu m.a. flugstjórar úr Félagi atvinnuflugmanna sem bentu á að ekkert væri hættulegra fyrir flug og flugvél en að fá vopnaðan mann inn í vél þó að hann teldist vera vörður. Þeir bentu líka á að nú er gert ráð fyrir því að flugstjórinn sé yfirmaður loftfarsins á flugi. Vopnaður vörður einhvers staðar aftur í vél er í rauninni orðinn yfirmaður í fluginu, ekki flugstjórinn. Við munum eftir dæmi í fréttum nýverið frá Bandaríkjunum þar sem hryllilegt óhapp varð fyrir rétti þar sem vopnaður lögregluvörður var að leiða sakborning inn til réttarhalda. Sakborningurinn var hlekkjaður en engu að síður tókst honum að ná byssunni af hinum vopnaða verði sínum og skjóta dómarann og einhverja fleiri þar inni. Ef sá sem var að leiða sakborninginn inn hefði verið vopnlaus hefði þetta ekki komið fyrir. Þær röksemdir að til þess að mega fljúga til hinna byssuóðu Bandaríkja verði þeir að vera viðbúnir því að þeir geri þessar kröfur eru hæpnar. Þeir eru stöðugt uppi með þessar kröfur. Því yrði þessi heimild að vera inni hjá íslenskum ráðherrum en við höldum einmitt örygginu uppi með því að leyfa ekki byssur um borð. Það voru hin einlægu orð þessara flugstjóra og ég tek undir. Þess vegna flyt ég breytingartillögu sem lýtur að efnismálsgreininni sem hljóðar svo: „Samgönguráðherra getur ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmála- og utanríkisráðherra mæli með því.“ — Ég legg til að þessi heimild verði felld brott og að vopnaburður í íslensku almenningsflugi verði því aðeins heimill að það sé liður í einhverju víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi um að gert skuli. Ég legg áherslu á að flugmennirnir ráði. Það á ekki að stilla þeim upp við vegg eins og hér er gert ráð fyrir og ég hafna því alfarið að vopn verði borin inn í íslenskt almenningsflug.

Síðan er það síðasta sem ég legg til, frú forseti, að líka sé óheimilt að flytja mjög hættuleg eiturefni með íslenskum loftförum sem eru í farþegaflugi, eiturefni sem eru hættuleg fólki og geta borist úr farangursgeymslum og farmgeymslum upp í farþegarými. Við heyrðum dæmi nýverið af flugi frá Bandaríkjunum með skordýraeitur sem lak út í flutningsrýminu. Eiturgufur af því gátu borist upp í farþegarýmið og valdið þar óbætanlegu tjóni og jafnvel dauða fólksins. Ég tel að setja þurfi miklu ákveðnari og strangari reglur um eiturefni sem geta verið hættuleg fólki og borist úr flutningsrými upp í farþegarými og vil að bannað verði að flytja slík efni í almennu farþegaflugi.

Frú forseti. Ég hef þá mælt fyrir þessum breytingartillögum mínum og hinum alvarlegu athugasemdum sem ég geri við þetta frumvarp sem hljóðar upp á að rýmka heimildir til að heimila vopnaburð í íslensku farþegaflugi. Í vopnalögum er kveðið á um að vopnaburður á almannafæri sé bannaður. Þetta er að mínu viti almannafæri, lögsaga íslenskra stjórnvalda. Samkvæmt almennum lögum er þessi vopnaburður bannaður og mér finnst að við eigum að fylgja því.