131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:36]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, frá meiri hluta samgöngunefndar.

Eftir ágæta umræðu sem varð við 1. umr. fékk nefndin málið til skoðunar og fékk til sín fjölmarga gesti eins og talið er upp á þskj. 1369 og að auki skriflegar umsagnir frá fjölda aðila. Var farið vandlega yfir það allt.

Það er rétt að geta þess, herra forseti, að það virðist vera mikil þverpólitísk ánægja með meginefni þessa frumvarps, enda snýr það að því sem er eiginlega nýr háttur tekinn upp hér, þ.e. að ráðherra er ætlað að gera fjarskiptaáætlun og skipa fjarskiptaráð með hagsmunaaðilum og opinberum aðilum, þeim aðilum sem koma að samgöngum, auk fjölmargra annarra atriða. Ég nefni þetta í framhaldi af þeirri miklu og á stundum heitu umræðu sem verður hér innan sala Alþingis eins og í samfélaginu öllu um gildi fjarskipta fyrir samfélag okkar og þau tækifæri og þá möguleika sem eru fyrir það á sviði nútímafjarskipta. Sú umræða er mönnum afar vel kunn og dregur enginn í efa markmið og gildi þeirra tækifæra sem fjarskiptin fela í sér. Þess vegna er fagnaðarefni að nú skuli fjarskiptunum komið í það form, líkt og gerist með vegáætlun, hafnaáætlun og flugáætlun, að gera áætlun um það með hvaða hætti eigi að byggja upp fjarskipti hér þannig að Ísland verði í fremstu röð. Það er í rauninni tilefni þessa frumvarps og er megininntak þess. Í umræðum innan nefndarinnar hygg ég að komið hafi fram almenn ánægja með það, eins og einnig kom fram við 1. umr., að koma uppbyggingu fjarskiptakerfisins í slíka fjarskiptaáætlun og gera það með faglegum og markvissum hætti sem e.t.v. hefur ekki verið til staðar. Meginkjarninn um skipan fjarskiptaráðs og ákvæði um gerð fjarskiptaáætlunar, þingsályktunar sem hæstv. samgönguráðherra á að flytja þinginu á þriggja ára fresti á grundvelli laga ef að lögum verður, samanber það mál sem hér er næst á dagskrá. Þar er einmitt hin fyrsta fjarskiptaáætlun, þingsályktun. Um það hygg ég að hafi verið nokkuð almenn samstaða innan nefndarinnar.

Hins vegar kom fram ágreiningur og þarf ekkert að fara leynt með það enda er það einungis meiri hluti hv. samgöngunefndar sem stendur að þessu samkomulagi. Sá ágreiningur lýtur að 7.–9. gr. Þar var samkvæmt upphaflegu frumvarpi gert ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtækin væru skylduð til að varðveita upplýsingar um fjarskipti í allt að 12 mánuði, skyldug til að varðveita innhringingar/úthringingar, tímasetningu, magn upplýsinga á tölvum og þar fram eftir götunum. Það kom fram í máli gesta, ekki síst frá fulltrúum Persónuverndar, að 12 mánuðir væru fulllangur tími og gæti eiginlega gengið gegn meðalhófsreglu og mælt var fremur með því að þessi varðveislutími yrði sex mánuðir. Það eru þau sjónarmið sem meiri hluti hv. samgöngunefndar féllst á og ein af breytingartillögum meiri hlutans lýtur einmitt að því að færa þennan geymslutíma úr 12 mánuðum niður í sex mánuði. Að auki, vegna ábendinga frá fjarskiptafyrirtækjunum, var dregið úr magni þeirra upplýsinga sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að skrá hjá sér. Þannig er einungis gert ráð fyrir því í breytingartillögunum að innhringingar séu skráðar, ekki magnið og ekki nákvæm tímasetning.

Það kom ábending frá fjarskiptafyrirtækjum um að miðað við forsendur upphaflegs frumvarps fæli það í sér gífurlega mikinn kostnað, jafnvel sem hlypi á tugum milljóna og gæti riðið smæstu fyrirtækjunum að fullu. Við þeim viðhorfum var brugðist með þeim breytingum sem eru nefndar, annars vegar að stytta tímann niður í sex mánuði og hins vegar að draga úr magni upplýsinga.

Í þriðja lagi var í upphaflegu frumvarpi ákvæði sem lýtur að svokölluðum frelsiskortum, að þau yrðu ekki seld öðruvísi en gegn kennitölu. Það töldu menn eiginlega vera óframkvæmanlegt og jafnvel þó að það væri framkvæmanlegt var bent á alls konar leiðir sem meintir glæpamenn gætu stundað til að fara fram hjá slíkri kennitöluskyldu. Því varð að ráði að breyta því ákvæði í frumvarpinu og vísa þessum „vanda“ yfir til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem henni er þá ætlað að finna leiðir í samráði við lögreglu, í samráði við hagsmunaaðila, fjarskiptafyrirtækin, og við Persónuvernd til að finna hvort einhverjar slíkar raunhæfar og færar leiðir séu til staðar. Það er sem sagt þriðja breytingin sem meiri hlutinn gerir á frumvarpinu eftir að hafa hlýtt á rök gesta sinna.

Þá stendur í rauninni eftir eitt ákvæði sem við í meiri hlutanum gerum okkur grein fyrir að er ekki algjör sátt um og það lýtur að því að lögreglunni er heimilað að kalla eftir upplýsingum án dómsúrskurðar hjá fjarskiptafyrirtækjunum en einungis upplýsingum er lúta að númeri og svokallaðri IP-tölu, þ.e. skráningarnúmeri eiganda tölvu. Ef lögregla ætlar hins vegar að vinna eitthvað frekar með þær upplýsingar er henni gert að leita til dómstóla.

Meiri hlutinn gerir sér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að þarna togast á ólík sjónarmið. Annars vegar þessi persónuréttur, friðhelgi einkalífsins getum við sagt, og hins vegar almannaheill. Lögreglan fór fram á það að þetta ákvæði yrði enn rýmra en við féllumst á. Í ljósi umhverfisins eins og það er í dag, í ljósi þess að í fíkniefnaheimi skipta sérstaklega GSM-símar og fjarskipti afskaplega miklu máli og ekki síður þegar við horfum til þess sem gerist á netinu, einkum þó þegar allt að því barnaníðingar stunda barnaklám og þar fram eftir götunum, hafði meiri hlutinn afskaplega sterka samúð með því að lögreglan gæti brugðist mjög fljótt við og náð því sem má kalla fingraför fjarskiptanna þegar í stað, þ.e. númerinu eða IP-tölunni, til að geta fengið a.m.k. einhverjar grunsemdir um það hverjir meintir brotamenn væru.

Ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á því að í b-lið 7. gr. er fjarskiptafyrirtækjunum ætlað að koma upp nánum verklagsreglum í samráði við Persónuvernd um það með hvaða hætti þessar upplýsingar eru gefnar lögreglunni. Þá er mér kunnugt um það að a.m.k. hjá einu af fjarskiptafyrirtækjunum eru slíkar verklagsreglur fyrir hendi, meira að segja samdar þar af einum virtum lögmanni á sviði mannréttinda. Það er líka vert að vekja athygli á því að það hefur verið stundað um árabil í samstarfi lögreglu og fjarskiptafyrirtækja að veita slíkar upplýsingar. Þessar verklagsreglur sem fjarskiptafyrirtækjunum er ætlað að koma sér upp, um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samráði við Persónuvernd, skipta máli, m.a. vegna þess að þá er hægt að hafa eftirlit með því með hvaða hætti samskiptum lögreglu og fjarskiptafyrirtækjanna er háttað, hvert tilefnið er og þar fram eftir götunum. Í ljósi þess að við erum að glíma við miskunnarlausan og grimman heim glæpamanna, fíkniefnasala, barnaníðinga og þar fram eftir götunum féllst meiri hluti samgöngunefndar á þetta sjónarmið lögreglunnar, gerði þó þær breytingar sem ég nefndi áðan en féllst ekki á sjónarmið Persónuverndar varðandi þessi fingraför fjarskiptanna, þ.e. heimildina til að sækja númer eða IP-tölu samkvæmt verklagsreglum sem fjarskiptafyrirtækin eiga að koma sér upp í samráði við Persónuvernd.

Þetta eru sem sagt þau álitaefni sem umræðan hefur kannski mest snúist um varðandi þetta frumvarp en ég vek enn og aftur athygli á því að meginkjarni þess lýtur að því sem þingheimur allur hefur í raun verið að kalla eftir árum saman, þ.e. að koma uppbyggingu fjarskiptakerfisins í formlegt og hnitmiðað far. Það er einmitt það sem verið er að gera með skipan fjarskiptaráðs, þriggja ára fjarskiptaáætlun og þar fram eftir götunum. Því ber að fagna og ég hygg að um það sé nokkuð þverpólitísk samstaða. Það eru þessi þrjú atriði, og þó sérstaklega eitt, sem kunna að vera talin álitamál og ef ekki mun það örugglega heyrast í ræðum á eftir.

Ég held að ég þurfi ekki frekar að fjölyrða um þetta, herra forseti. Undir nefndarálit meiri hluta samgöngunefndar á þskj. 1369 og þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til á þskj. 1370 rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón Hjörleifsson, þó með fyrirvara, og Magnús Stefánsson. Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég gat um hér.