131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[19:01]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Það felur í sér í fyrsta lagi að verið er að opna á heimildir til að meta meðafla við veiðar á uppsjávarfiski til aflamarks fiskiskipa með ákveðnum hætti. Í öðru lagi eru gerðar nokkrar breytingar á framkvæmd leyfissviptingar vegna veiða umfram veiðiheimildir.

Eins og við vitum hafa uppsjávarfiskveiðarnar verið umdeildar hvað þetta varðar. Veiðar á síld, kolmunna og loðnu hafa verið mjög umdeildar og það er mjög umdeilt hversu mikið af meðafla kemur með við þær veiðar. Það hafa verið mjög lélegar og nánast engar leiðir til að meta þann meðafla, t.d. af botnfiski, sem kemur með við þessar veiðar. Það eru mjög strangar reglur hér á landi um afla á litlum fiskiskipum, smábátum, þar er hver sjómaður eltur með hvern fisk sem samkvæmt lögunum gæti með ólögmætum hætti verið dreginn að landi. En þegar kemur að hinum stóra, gríðarlega afkastamikla flota hefur verið sagt að stærðin sé svo mikil, umfangið sé svo mikið að ekki sé hægt að beita neinum viðhlítandi lögum og reglum til að meta annan afla eða magn af öðrum afla sem kemur með við þær veiðar.

Það er fullkomið óréttlæti við framkvæmd á þeim lögum sem hafa lotið að umgengni um nytjastofna sjávar og snertir meðaflann, fullkomið óréttlæti í mjög hörðum lögum og reglum og viðurlögum og dýru eftirliti sem hefur bitnað fyrst og fremst á á litlum bátum en stóru aflaskipin sem taka meðafla í gríðarlegu magni fá að gera það nánast eftirlitslaust.

Hér er verið að leggja til ákveðna tilraun með því að taka stikkprufur og sýnishorn til að reyna að meta meðafla sem kemur við veiðar á uppsjávarfiski. Það hefur komið fram í nefndinni að það hafi verið mjög takmarkaðar rannsóknarforsendur fyrir hendi til að undirbyggja þessa aðferð en engu að síður er lagt til að hún sé reynd.

Ég tek undir það sjónarmið að miðað við núgildandi lög og reglur um stjórn fiskveiða sé mikilvægt að reyna að ná höndum um þann meðafla sem berst með uppsjávarfiskveiðum. Innan þeirra marka styð ég það sjónarmið sem hér er verið að leggja fram. Ég styð því álit minni hluta sjávarútvegsnefndar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur gert grein fyrir. Sérstaklega styð ég lokasetningar álitsins, að við leggjumst ekki gegn samþykkt þessa frumvarps þar sem innan þessara marka, þ.e. laga um stjórn fiskveiða, sé efni þess til bóta eða gæti verið til bóta, þó er engin trygging fyrir að það sé til bóta, alls ekki, en við teljum að leggja þurfi alla áherslu á að þróa þessar veiðar með þeim hætti að magn meðafla minnki verulega frá því sem nú er og tryggja að sá meðafli sem þó fæst berist að landi heill og óskaddaður, sé þess nokkur kostur, þannig að það sé hægt að nýta hann og hann reiknist þá til aflamarks meðan við enn búum við það kerfi. Ég styð þessi sjónarmið.

Það sem ég vildi annars hnykkja á eru þau sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leggja verulega aukna áherslu á vistvænar veiðar og sjálfbæra nýtingu veiðistofnsins. Það liggja nánast engar eða mjög ófullkomnar rannsóknir fyrir um áhrif þessara gríðarlegu stórvirku veiðarfæra sem trollin sem notuð eru á uppsjávarfisk eru, mjög litlar rannsóknir um áhrif þeirra á lífríki hafsins þar sem þau eru dregin yfir. Það eru þessi atriði sem við viljum að séu skoðuð, áhrif veiðarfæranna á lífríkið í heild sinni. Einnig hvernig vaðið er inn í einstaka afmarkaða stofna, ég tala nú ekki um torfufisk þar sem hægt er að taka fiskinn sem gengur í torfum á ákveðnum tíma ársins og veiða hann í gríðarlegum mæli.

Við verðum að horfa á vistkerfi sjávarins í heild, samspil á milli einstakra tegunda og lífmassanna. Við getum ekki leyft okkur að ganga með þeim hætti sem nú er gert á hverja einstaka tegund, að hver einstök tegund fái sinn afmarkaða kvóta og sé veidd með þeim hætti án tillits til annars ástands í lífríkinu. Þetta gagnrýnum við. Við viljum horfa á þetta heildstætt.

Sömuleiðis viljum við slá mikla varnagla við þeirri þróun sem orðið hefur í þessum veiðarfærum, notkun þeirra, að trollin eru stöðugt að stækka. Menn tala um að op þeirra séu eins og tveir, þrír knattspyrnuvellir og þetta er dregið um hafið, kannski klukkutímum saman og enginn veit í rauninni hver áhrif það hefur á lífríkið. Við sláum mikla varnagla við veiðum af þessu tagi og minnum á þegar gefin var heimild til að veiða t.d. síld í troll, mig minnir að það hafi bara verið gert í tilraunaskyni og aldrei heimilað að fullu.

Frú forseti. Við viljum, og það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það sé litið á samspil í lífríkinu, áhrif veiða og veiðarfæra á lífríkið í heild og einstaka stofna og það eigi að vera leiðarljósið þegar við stýrum, metum og forgangsröðum í umgengni um nytjastofna sjávar.