132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Steinstöplar á Austurvelli.

[13:34]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil á þessum fyrsta fundi sem ég hef tækifæri til að kveðja mér hljóðs um störf þingsins lýsa yfir ánægju minni yfir því að hinir forljótu steinnökkvar sem hafa verið á Austurvelli eru horfnir. Ég verð að hrósa borgarstjóra fyrir að hafa þó sýnt þá smekkvísi að fjarlægja þessa steinnökkva áður en Alþingi var sett.

Ég vil láta þess getið að ég hef skrifað tveimur borgarstjórum bréf út af þessum nökkvum sem forseti Alþingis. Hvorugu bréfanna hefur verið svarað, sem sýnir með nokkrum hætti þá afstöðu sem borgarstjórar og meiri hluti borgarstjórnar hafa til Alþingis og umhverfis Alþingis. Ég vil óska þess við forsætisnefnd að hún beiti sér áfram fyrir því að Austurvöllur fái að vera í friði. Umhverfi Alþingishúss er í mínum huga helgur reitur. Austurvöllur er hjarta borgarinnar og þar eiga menn ekki að hrúga upp þvílíkum hlutum eins og steinnökkvarnir voru á þessu sumri.

Við sjáum breytinguna sem orðið hefur. Ég hafði stungið upp á að borgarstjórinn reyndi að raða þessum nökkvum í kringum ráðhúsið en af einhverjum ástæðum kaus borgarstjórinn að fara ekki að þeim ráðum, sem mér að vísu finnst bera vott um nokkra smekkvísi.