132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:11]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar, frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Söluferli á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. hófst í byrjun árs 2004 með gerð áreiðanleikakönnunar og verðmats á fyrirtækinu. Hinn 4. apríl 2005 lagði framkvæmdanefnd um einkavæðingu til að hluturinn yrði allur seldur í einu lagi einum hópi kjölfestufjárfesta. Var sú tilhögun í samræmi við tillögu fjármála- og ráðgjafarfyrirtækisins Morgans Stanley.

Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta var hins vegar háð ákveðnum skilyrðum, m.a. að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar eignuðust stærri hlut í Landssíma Íslands hf. en 45% fram að skráningu félagsins á hlutabréfamarkaði og að ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins yrði af hálfu kaupenda boðið almenningi og öðrum fjárfestum til kaups og þá í síðasta lagi í árslok 2007.

Söluferlið var tvíþætt. Í fyrstu, þann 17. maí síðastliðinn, skiluðu bjóðendur á grundvelli fyrirliggjandi útboðsgagna inn óbindandi tilboðum. Við mat á þeim var m.a. horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýnar varðandi rekstur Landssímans hf., starfsmannastefnu og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, svo og sjónarmiðs bjóðenda hvað varðar markmið ríkisins með sölunni. Alls uppfylltu 12 aðilar, sem að stóðu 35 innlendir og erlendir fjárfestar, skilyrði nefndarinnar og var boðið til þátttöku á síðara stigi söluferlisins. Þeim var síðan gert kleift að fá frekari upplýsingar um Landssíma Íslands hf. í gegnum kynningar, heimsóknir, áreiðanleikakannanir og að gera síðan bindandi tilboð á grundvelli þeirra athugana. Þetta endaði með því að þrír hópar fjárfesta gerðu bindandi tilboð í fyrirtækið.

Eftir að tilboðin voru opnuð hinn 26. júlí 2005 samþykkti fjármálaráðherra, sem fór með eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. í samráði við ráðherranefnd um einkavæðingu, tillögu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um að taka hæsta tilboðinu sem kom frá Skipti ehf. og hljóðaði upp á 66,7 milljarða kr. Kaupverðið var greitt til íslenska ríkisins hinn 6. september síðastliðinn eftir að samkeppniseftirlitið hafði samþykkt kaupin fyrir sitt leyti.

Þegar kaupsamningurinn hafði verið gerður nú í sumar og ljóst var hversu mikið fé fengist fyrir hlut ríkisins í Landssímanum þá réð ríkisstjórnin ráðum um hvernig söluandvirðinu skyldi varið og kynnti tillögur um það 6. september síðastliðinn, sama dag og greiðslan barst. Þær tillögur eru nánar útfærðar í því frumvarpi sem hér er lagt fyrir hv. Alþingi.

Við mótun þessara tillagna var það meginsjónarmið að stofna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem hér var áðan rædd, ekki í hættu en hún kveður skýrt á um að jafnvægi og stöðugleiki skuli ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ráðstöfun söluandvirðisins verður í aðalatriðum tvíþætt samkvæmt frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að drjúgum hluta söluandvirðisins verði varið til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins. Þetta mun leiða til minni endurgreiðslu og vaxtabyrði fyrir ríkissjóð á komandi árum. Hins vegar er gert ráð fyrir að stærstum hluta söluandvirðisins, þ.e. 43 milljörðum kr., verði varið til þess á næstu árum að styrkja innviði samfélagsins, m.a. til að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, efla rannsóknar- og þróunarstarf og örva þannig frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu, treysta undirstöðu byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu með bættum samgöngum og jöfnun aðstöðu landsmanna hvað varðar aðgengi að fjarskiptum.

Til þess að afstýra ofþenslu í efnahagslífinu, sem margir eru nú hræddir um, er gert ráð fyrir að meginhluti framkvæmdanna verði ekki fyrr en eftir að yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum lýkur, þ.e. á tímabilinu 2007–2012. Með því að kveða á um ráðstöfun fjárins til svo langs tíma sem raun ber vitni er verið að eyða óvissu um hvert fjármunirnir fara og um leið tryggja að þeir nýtist sem best til þjóðþrifaframkvæmda sem annars yrði ekki kleift að ráðast í. Ég mun nú fara yfir helstu framkvæmdir sem frumvarpið kveður á um.

Á árunum 2007–2010 verður 15 milljörðum kr. varið til framkvæmda í vegamálum. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á þessu tímabili. Helsta vegaframkvæmdin verður lagning Sundabrautar, sem lengi hefur verið á dagskrá, en til hennar verður varið 8 milljörðum kr. og er sú ráðstöfun til þess að gera þá framkvæmd mögulega. Mikið var talað um hana ásamt ýmsum öðrum framkvæmdum þegar samgönguáætlun var hér síðast til umræðu. Þannig verður hægt að ljúka fyrri áfanga Sundabrautar upp í Geldinganes og samhliða er gert ráð fyrir að ráðist verði í seinni áfangann upp á Kjalarnes en hann verði fjármagnaður í einkaframkvæmd sem á eftir að útfæra nánar.

Val á öðrum vegaframkvæmdum sem gert er ráð fyrir að fjármagnaðar verði af söluandvirði Landssímans réðst fyrst og fremst af því hvað Vegagerðin taldi brýnustu verkefni í samgöngumálum landsmanna og allt eru þetta verkefni sem koma við sögu á samgönguáætlun og hafa allar verið margræddar á hv. Alþingi því það eiga alþingismenn a.m.k. sameiginlegt að allir hafa mikinn áhuga á samgöngubótum í landinu.

Einnig má nefna breikkun Reykjanesbrautar, gerð gatnamóta við Nesbraut, framkvæmdir við Vestfjarðaveg, Tröllatunguveg um Arnkötludal, Þverárfjallsveg, Norðausturveg, nýja brú yfir Hornafjarðarfljót, vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu og Suðurstrandarveg vestur af Þorlákshöfn.

Herra forseti. Það er líka öllum ljóst og mikil samstaða er um það á hv. Alþingi að heilbrigðisþjónusta er svo sannarlega lykilatriði í nútímavelferðarþjóðfélagi, góð og fullkomin heilbrigðisþjónusta. Samkvæmt frumvarpinu verður 18 milljörðum kr. varið til að ljúka mikilvægum áföngum í byggingu nýs hátæknisjúkrahúss sem áformað er að reisa á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Áætlaður heildarkostnaður við þá uppbyggingu er mikill eða rúmlega 40 milljarðar kr. Með því framlagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir verður hægt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu, sem er mjög brýnt verkefni, og reisa hús fyrir rannsóknir. Þessi framkvæmd ein og sér mun stuðla að mikilli byltingu í heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn og mun hafa mikil áhrif á að bæta heilsu og bjarga mannslífum.

Engum Íslendingi blandast hugur um hversu mikilvægt löggæslu- og björgunarstarf Landhelgisgæsla Íslands vinnur og á hv. Alþingi hefur til margra ára verið talað um nauðsyn þess að við mundum smíða fullkomið varðskip og björgunarskip, bæði til að þjóna landhelgisgæslu og björgunarstarfi. Okkur er það jafnframt ljóst að flugvél Landhelgisgæslunnar er komin mjög til ára sinna og þótt hún hafi þjónað okkur öllum mjög vel í langan tíma er kominn tími til að við endurnýjum þennan tækjakost með því að smíða nýtt skip og kaupa nýja flugvél sem getur þjónað þeim aðstæðum sem uppi eru í dag. Gert er ráð fyrir að 3 milljörðum kr. verði varið til þessa verkefnis sem ég veit að er mikil samstaða um hér á hv. Alþingi.

Í samræmi við það markmið ríkisstjórnarinnar að efla nýsköpun og endurnýjun í atvinnulífinu verður eigið fé Nýsköpunarsjóðs aukið um 2,5 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu. Nýsköpunarsjóður var stofnaður 1998 og fyrir liggur að hann hefur farið í marga góða hluti en hann hefur ekki lengur bolmagn til nýfjárfestinga og þess vegna hefur hann beint kröftum sínum að því að verja þær fjárfestingar sem hann hefur þegar ráðist í. Gert er ráð fyrir að hluta af þessu fjármagni eða 1,5 milljörðum kr. verði varið með þeim hætti að Nýsköpunarsjóður standi að því ásamt lífeyrissjóðunum og fjármálastofnunum og hugsanlega öðrum fjárfestum að fjárfesta í svokölluðum sprotafyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður eigi ekki meira en 50% í slíkum sjóði eða sjóðum og nú eiga sér stað viðræður við lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki um þetta mál og hefur það fram að þessu gengið mjög vel.

Í anda þess meginmarkmiðs frumvarpsins að styrkja innviði samfélagsins verður 2,5 milljörðum varið til uppbyggingar í samræmi við fjarskiptaáætlun. Þetta mál var mjög til umræðu þegar verið var að ræða sölu Símans á Alþingi síðasta vor og sumir héldu því fram að ólíklegt væri að hægt væri að koma á góðu sambandi um allt landið við sölu Símans, en við mörg héldum því fram að því væri einmitt öfugt farið, að með því að ríkið drægi sig út úr þeim rekstri og væri ekki að binda fé í samkeppnisrekstri skapaðist svigrúm til þess að fara í ýmislegt sem annars væri ekki hægt að fara í, þar á meðal að koma á betra fjarskiptasambandi í landinu.

Ráðstöfun fjár til þessa málaflokks miðar að því í fyrsta lagi að auka öryggi vegfarenda með bættri farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og í öðru lagi er gert ráð fyrir að fjármunum verði varið til að stuðla að dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur og strjálbýlið að leiðarljósi. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. Samgönguráðherra mun á næstunni flytja frumvarp sem þegar liggur fyrir um stofnun fjarskiptasjóðs en í gegnum þann sjóð verður fjármagni útdeilt í samræmi við framangreind markmið.

Þá er lagt til að farið verði í stórátak í uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða með því að ráðstafa til málefnisins 1 milljarði kr. af söluandvirði Símans. Miðað er við að 150 einstaklingar muni njóta góðs af þeirri uppbyggingu, einstaklingar sem eru í brýnni þörf. Það var mat manna að það væri ekki síst á þeim vettvangi, þar sem afar miklar þarfir blöstu við, sem væri nauðsynlegt að nota þetta tækifæri til að koma til móts við þessa einstaklinga og þær aðstæður sem þar eru uppi.

Síðast vil ég nefna að það þótti vel við hæfi af hálfu ríkisstjórnarinnar að minnast þess með myndarlegum hætti að árið 2011 verða 100 ár liðin frá stofnun Háskóla Íslands og 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Af því tilefni er lagt til að varið verði 1 milljarði kr. til að reisa nýtt hús fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, en sú stofnun verður til við samruna Örnefnastofnunar, Orðabókar Háskólans, Íslenskrar málstöðvar og Stofnunar Sigurðar Nordals. Menntamálaráðherra mun á næstunni flytja frumvarp um þessa sameinuðu stofnun. Í þessu nýja húsi verður hægt að hýsa þjóðargersemar okkar, handritin, við bestu hugsanlegu aðstæður og að sjálfsögðu verður þess gætt að þau verði almenningi sem aðgengilegust. Í húsinu verður miðstöð íslenskra fræða, stofnun sem hýsir hugvísindi okkar, og allir eru sammála um að mun leysa úr brýnni þörf sem er fyrir hendi, m.a. þörf Háskóla Íslands, sem verður þess valdandi að háskólinn getur beitt í auknum mæli kröftum að öðrum mikilvægum verkefnum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mikið fleiri orðum um frumvarpið, það skýrir sig að mestu sjálft. Það má eins og alltaf áður að sjálfsögðu deila um hvernig verja beri svo miklum fjármunum sem raun ber vitni. Ég tel að ríkisstjórnin hafi nálgast þetta verkefni af ráðdeild og ábyrgð og ég vonast til að hv. þingmenn geti sameinast um þau þjóðþrifamál sem frumvarpið kveður á um að verði hrint í framkvæmd. Allt eru þetta mál sem vart þarf að deila um.

Með þessu frumvarpi vill ríkisstjórnin undirstrika að einkavæðingin var ekki í þágu fárra heldur þjóðarinnar allrar. Hún gerir ríkinu kleift að styrkja innviði samfélagsins öllum landsmönnum til hagsbóta og ekki síst komandi kynslóðum. Ég tel að þessi sala Símans og einkavæðing hans hafi tekist einstaklega vel og í reynd miklu betur en margir spáðu á háttvirtu Alþingi. Um þetta mál var mikil umræða og þar gætti oft á tíðum nokkurrar svartsýni. Ég tel að í ljós hafi komið að sú svartsýni hafi verið óþörf og átti ekki við rök að styðjast. Nú liggur þetta fyrir og nýir eigendur hafa tekið við þessu ágæta fyrirtæki. Það fyrirtæki verður í samkeppni við önnur fyrirtæki á sama markaði.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki var lengur þörf fyrir ríkið að vera í þessum rekstri. Ég er viss um að það á eftir að koma enn betur í ljós. En mikilvægast af öllu er að okkur ber að losa fjármagn til mikilvægra samfélagsverkefna ef er ekki lengur ástæða og nauðsyn fyrir ríkið til að þjóna slíkum markaði. Ríkissjóður á ekki að stunda samkeppnisrekstur. Það hefur ríkisstjórnin haft að leiðarljósi og um það ættu allir að geta verið sammála. Með því að stunda samkeppnisrekstur eru menn að binda fjármagn sem þeir geta notað annars staðar. Þá er í reynd komið í veg fyrir að ríkið geti sinnt sínu hlutverki eftir því sem best verður á kosið. Það hefur komið vel í ljós, nú þegar þessu máli er lokið, að við erum á réttri leið í þeim efnum.

Ég vil, hæstv. forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til fjárlaganefndar.