132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:15]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður skildi mál mitt alveg rétt, þ.e. ég held að á margan hátt sé afar skynsamlegt að menn skoði það vandlega hvernig eigi að ráðstafa miklu fé til að skapa ekki óvissu. Ég velti því hins vegar upp hvaða heimildir þingið hefur til þess að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vakti athygli á þeirri spurningu.

Ég vakti einnig máls á því að ríkisstjórnin hefði getað forgangsraðað á annan hátt en hér er gert og nefndi m.a. sérstaklega að ég sé ekki tvöföldun Suðurlandsvegar í þessum fjármunum sem ég hefði kannski viljað sjá. Ég nefndi einnig að hugsanlega hefði mátt leggja þessa fjármuni inn í Seðlabankann ef menn hefðu viljað tryggja það að skapa ekki einhverja óvissu í efnahagsmálum. Það eru margvíslegar leiðir færar. En við vorum að ræða það að hægt er að ráðstafa fjármunum í mörg góð verkefni (Forseti hringir.) en hins vegar er hægt að forgangsraða á mismunandi hátt.