132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður, verð ég að segja, er hæstv. fjármálaráðherra alveg einn um það í þessari viku að telja að stöðugleiki sé í efnahagsmálum á Íslandi. Hann er líka alveg einn um það að telja að í þessu frumvarpi komi fram nægilega mikið aðhald. Bæði gagnrýna menn spána sem það byggist á og aðgerðirnar sem í því er að finna.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji það trúverðugt að núna á mesta þenslutíma Íslandssögunnar sé minni þörf á aðhaldi en árin 1999 og 2000. Það er sú forsenda sem hér er lagt upp með. Það er ekki trúverðugt að við á þessum tímum þurfum minna aðhald í ríkisbúskapnum en við þurftum 1999 og 2000. Munum að þá missti ríkisstjórnin verðbólguna upp í 9%, sem hækkaði skuldir heimilanna í landinu gríðarlega í einu vetfangi. Af því eigum við að hafa áhyggjur hér, en líka aðgerðunum.

Það vekur athygli að í þessu fjárlagafrumvarpi er aðeins gerð tillaga um hækkun persónuafsláttar um 2,5% í 4% verðbólgu. Lægst launaða fólkið á ekki einu sinni í persónuafslættinum að fá að halda raungildi af neysluverði, hvað þá að fylgja launum. Við hljótum að spyrja: Er þetta, ofan á það að gefast upp við verðbólgumarkmiðið, framlag ríkisstjórnarinnar í stöðuna á vinnumarkaði og þá kjarasamninga sem verið er að reyna að leysa úr? Eru þetta skilaboðin inn í þær kjaraviðræður að ríkisstjórnin leggi það hér til að rýra raungildi persónuafsláttarins um 1,5%? Eða hefur ríkisstjórnin ekki hugsað sér að vera með nein innlegg í þá erfiðu stöðu sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið eru að fást við? Er það rétt lýsing (Forseti hringir.) hjá aðilum vinnumarkaðarins að ríkisstjórnin komi bara alls ekkert (Forseti hringir.) að því borði og neiti að horfast í augu við þann vanda sem þar er?