132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins eitt atriði í lokin hjá hv. þingmanni. Hann telur að meira aðhald þurfi. Til að umræðan geti gengið skaplega fyrir sig mundi ég gjarnan vilja vita hvað hann telji að aðhaldið þurfi að vera mikið. Ef við gefum okkur að drifkrafturinn í þessu sé landsframleiðslan og hagvöxturinn, hvað þyrfti þá að minnka hagvöxtinn mikið og hvernig telur hann að aðhaldið geti verið til þess að það nái þá þeim tiltekna árangri sem hann vill ná, annars vegar á tekjuhliðinni og gjaldahliðinni í prósentum af landsframleiðslu? Ég er ekki að biðja hann um að segja mér nákvæmlega hvar hann mundi vilja skera niður, ég held að það sé kannski ósanngjarnt í upphafi fjárlagavinnunnar, en ef hann telur að þörf sé á meira aðhaldi hlýtur hann að hafa einhverja stærð í huga um það hversu mikið aðhaldið ætti að vera á gjaldahliðinni og tekjuhliðinni og líka hvaða árangri hann ætlaði sér að ná með því aðhaldi, mælt í minni landsframleiðslu.