132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:29]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst af ræðu hv. þingmanns að hann mun sakna skattteknanna. Hann mun sakna þess að geta ekki ráðstafað þeim úr ráðherrastóli eins og hann gerði á sinni tíð í stað þess að einstaklingarnir fái að ráðstafa sínum peningum sjálfir.

Varðandi hagvöxtinn. Það er spáð 2,5% hagvexti 2007, 2008 og 2009. Það er þá án stóriðju. Þetta er hagvöxtur sem er að koma úr öðrum greinum, sem byggist á mannauðnum, sjávarauðlindinni og ferðaþjónustunni og öðru því sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum þannig að þessi spá, sem er í þjóðarspá fjármálaráðuneytisins, ber einmitt vitni um að við höfum trú á öðrum greinum en stóriðju. En 2,5% hagvöxtur væri bara talið harla gott víðast hvar í Evrópu nú um stundir hjá ákveðnum þjóðum sem eru öðruvísi samsettar en við. En ung þjóð eins og við sem er að stækka, það er auðvitað styrkur, það er rétt hjá hv. þingmanni en þessir stóru árgangar þurfa atvinnutækifæri og til að skapa þau þurfum við líka að nýta orkuna. Og til þess að geta gert það þurfum við stóriðjuna með hinu.

Með öðrum orðum þurfum við fjölbreytnina og við höfum ekki efni á því að segja nei við þeim hagvexti sem felst í því að virkja og nýta í stóriðju.