132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:14]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er ekkert launungarmál að úrslit kosninganna sl. laugardag voru mikil vonbrigði. Það á ekki að fela slíkt. Við erum búin að vinna að því um langt skeið að efla sveitarstjórnarstigið en úrslit kosninganna sýna það og sanna að það hefur mistekist.

Hver er ástæðan fyrir því? Það er hárrétt hjá fyrrverandi ræðumanni að tekjustofnanefndin sem vann að því að leiðrétta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var allt of lengi að finna lausn. Sá tími nýttist illa. Hann jók á vantraust milli sveitarstjórna og ríkisvalds og það er að mínu mati ein meginorsök þess að svo illa fór. Við erum með allt of mikilvægt mál í höndunum til þess að við getum látið það fara svona. Það átak sem nú var gert er á margan hátt svipað og gert var árið 1993. Það fór svipað en það vannst síðan upp að nokkru leyti á árunum þar á eftir. Ég segi, frú forseti: Við höfum ekki tíma til þess einu sinni enn að bíða eftir því að það gerist á sama hátt. Því er nauðsynlegt að hæstv. félagsmálaráðherra svari því á eftir, ef hæstv. ráðherra er sammála mér í því að það sé eitt af mikilvægustu málum íslensks samfélags í dag að efla sveitarstjórnarstigið, hvaða lærdóm á að draga af þessum kosningum og hver eru næstu skref. Það er augljóst mál að ekki er hægt að bíða endalaust. Það var líka gert ráð fyrir því í þessu verkefni að verkefni yrðu færð til sveitarfélaganna. Það liggur ljóst fyrir að ef við náum ekki að stækka þau og fækka þeim þá verða þau ekki hæf til þess að taka við verkefnunum.

Frú forseti. Hér erum við með verkefni sem skiptir samfélagið miklu máli og ekki síst landsbyggðina. Ef við höldum áfram þessa leið get ég ekki sagt að framtíðin sé nógu björt fyrir landsbyggðina.

Ég verð þó, frú forseti, að nota þetta tækifæri vegna þess að ég er svo heppinn að búa á svæði þar sem sameining var samþykkt að fagna því alveg sérstaklega en verð að segja um leið að ég átti von á að það yrði miklum mun víðar og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kemst ekki hjá því að gera okkur grein fyrir því hvernig hann ætlar að axla ábyrgðina af því hvernig fór.