132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:17]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Staðreyndin er sú að íbúar landsbyggðarinnar sjá ekki hag sinn af því að fara að ráðleggingum hæstv. félagsmálaráðherra og þeir sögðu nei við hann. Þeir sögðu nei við formann þingflokks Framsóknarflokksins og nei við tillögu formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er staðreynd málsins.

Við skulum líka hafa það í huga að þessi áróður fyrir sameiningu sveitarfélaga er oft á tíðum sá að verið er að forðast vanda landsbyggðarinnar. Verið er að forðast að ræða vanda landsbyggðarinnar og menn fara þá út í að ræða sameiningu sveitarfélaga í stað þess að taka á meginvanda sveitarfélaganna. Það er alltaf verið að ræða um að færa eigi einhver verkefni til sveitarfélaga en það er alveg einsýnt að sveitarfélög, þó að íbúum fjölgi úr því að vera 400 í 600, t.d. eins og á Ströndum, að þar mun ekki verða nein geta til þess að taka við auknum verkefnum, það er alveg einsýnt.

Öll þessi umræða um sameiningu sveitarfélaga er á villigötum. Ef litið er þröngt á þennan málaflokk væri miklu nær að líta á það að ná fram sparnaði í opinberum rekstri með því að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Frú forseti. Fólk á landsbyggðinni hefur fyrst og fremst áhyggjur af atvinnumálum og það sér engan augljósan hag af sameiningu. Þó svo að sveitarfélög verði sameinuð verður lítil breyting þar á. Hefur orðið einhver breyting í Vesturbyggð eða í Skagafirði við sameiningu sveitarfélaga? Nei, því miður ekki. Það er kominn tími til að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum og hefur gert það síðasta áratug fari að tala um raunverulegan vanda í stað þess að þvæla út og suður um sameiningu á einhverjum stjórnsýslueiningum.