132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:24]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Sem nefndarmanni í sameiningarnefnd voru niðurstöður þessara kosninga ákveðin vonbrigði. Unnið var mjög gott starf í nefndinni þar sem fulltrúar meiri hluta og minni hluta á Alþingi og fulltrúar í sveitarfélögum sem störfuðu saman náðu saman sem einn maður.

Nefndin hélt kynningarfundi um allt land. Nokkuð góð mæting heimamanna var á flesta fundi. Skýrslan sem við gerðum tók á öllum þáttum um kosti og galla sameininga en önnur nefnd fjallaði um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Það sem kemur mér á óvart er að einungis 22 þúsund einstaklingar skuli kjósa en tæp 70 þúsund voru á kjörskrá. Þetta er um 32% kosningaþátttaka. Það virðist vera lítill áhugi fyrir þessum sameiningum, því miður.

Frú forseti. Mjög ósanngjörn umræða hefur farið af stað hjá minni hlutanum á Alþingi að kenna hæstv. félagsmálaráðherra eða ríkisstjórninni um þessar niðurstöður. Málið var lagt upp með þeim hætti að íbúalýðræði væri virt og einstaklingar heima í héraði höfðu ákvörðunarvald um framtíð síns sveitarfélags, ekki sveitarstjórnir eða ríkisvaldið.

Frú forseti. Hvað varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga koma tæpir 10 milljarðar til sveitarfélaganna á rúmum þremur árum, annars vegar með beinum framlögum og hins vegar með ýmsum tilhliðrunum sem eru ígildi peninga fyrir sveitarfélögin. Hluti af skýringum á niðurstöðum þessara kosninga er misjöfn fjárhagsstaða sveitarfélaga. Sveitarfélög sem standa vel og eru með rekstur sinn í lagi eru ekki eins spennt fyrir sameiningu við sveitarfélög sem eru mikið skuldsett. Ríkisstjórnin lofaði samt sem áður að setja 2,4 milljarða viðbótarframlag í jöfnunarsjóð til þess að skapa betra umhverfi í kjölfar sameiningar sveitarfélaga. Það var mikið rætt um hvort setja eigi lög um sameiningu sveitarfélaga, lög sem segja til um lágmarksstærð þeirra. Hér er á ferðinni vandmeðfarið mál sem þarf mikla skoðun ef það á annað borð verður lagt fyrir Alþingi.

Að endingu, frú forseti, ber að geta þess að það voru sveitarfélögin sem höfðu frumkvæði að því að fara í þessar sameiningartilraunir, ekki ríkisstjórnin, en það eru ekki allir sem virðast átta sig á því í þessari umræðu.