132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Vaxtahækkun Seðlabankans.

[15:31]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Nú er því spáð að stýrivextir Seðlabankans geti farið í allt að 12% á næsta ári, jafnvel fyrr, m.a. vegna þess að verðbólguhorfur hafa versnað. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa óhentuga hliðarverkun þar sem þær hvetja m.a. til frekari útgáfu á erlendum skuldabréfum í krónum talið.

Erlend skuldabréf í krónum eru nú að nálgast — ég hefði skrifað 70 milljarða í síðustu viku en sú upphæð hefur hækkað í nálægt 83 milljarða núna í vikubyrjun. Ef það gengur eftir sem hér hefur verið lýst, ásamt gegndarlausum innflutningi og áframhaldandi viðskiptahalla, þá getum við átt von á að gengisvísitalan fari í 100 stig, jafnvel neðar, með hrikalegum afleiðingum fyrir útflutningsfyrirtæki landsins. Það hefur komið fram, t.d. hjá fulltrúum útvegsmanna, að sjávarútvegsfyrirtækin muni mörg hver ekki þola þetta lengur og við taki frekari lokanir, uppsagnir og jafnvel gjaldþrot með tilheyrandi erfiðleikum, miklu atvinnuleysi og ógn við stöðugleika hjá því fólki sem missa mun atvinnuna. Þetta kemur sér auðvitað verr fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni, þar sem sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur, en hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningsfyrirtækin eru flest og græða sem aldrei fyrr.

Frú forseti. Seðlabankinn virðist einn eiga að standa verðbólguvaktina. Hann telur sig hafa aðeins eitt úrræði, þ.e. að hækka stýrivexti með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Því langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra, ráðherra efnahagsmála, og fá álit hans á því hvort ekki sé ástæða til að huga að og skoða alvarlega að nota reglur um eiginfjárstöðu bankanna og annarra fjárfestingarsjóða meira sem hagstjórnartæki með því að hækka þau viðmið sem gilda og draga þar með úr þörf banka og sjóða til að lána fé.