132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Lækkun matarskatts.

[15:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það liggur greinilega mikið á hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að ná fram öllum kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins. Kjörtímabilið er ekki nema rétt liðlega hálfnað þannig að við eigum heilmikið eftir að starfa áður en við göngum aftur til kosninga. Við erum þegar búnir að taka ákvarðanir um viðamiklar skattalækkanir sem þegar hafa verið lögfestar og eins og ég segi, ég tel ekki rétt að rífa þær ákvarðanir upp. Við höfum lagt fram aðhaldssöm fjárlög og ef hv. þingmaður vill að við bætum því við að lækka virðisaukaskatt á matvæli inn í þær áætlanir sem við erum þegar búin að gera fyrir næsta ár í ríkisfjármálunum þá er hún einfaldlega að ganga gegn sínum eigin yfirlýsingum og sinna manna um að hún vilji auka aðhaldið.

Það er einfaldlega verið að drepa umræðunni á dreif og rugla almenning. Við náum þeim málum fram þegar réttur tími er kominn.