132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við nú ræðum, ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., er frumvarp sem ég held að hljóti að vera skynsamlegt þrátt fyrir ýmsar athugasemdir eða skoðanir flokka á því þegar Síminn var seldur, hvort átti að selja hann allan eða að hluta til. Ég get ekki ímyndað mér annað en að menn komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hér sé skynsamlega að verki staðið og sett niður. Ég tók reyndar eftir því við 1. umr. að svolítil gagnrýni er á þinglega meðferð málsins, þ.e. að verið sé að ráðstafa fé langt fram í tímann. En eins og fram hefur komið hjá hæstv. utanríkisráðherra, fyrrverandi fjármálaráðherra, lýsti hann því hins vegar hvernig þurfi í hvert og eitt skipti að sækja fjárheimildir, þær sem hér eru boðaðar, til fjárlaga hvers árs fyrir sig. Það er hin eðlilega málsmeðferð. En hér er þetta sem sagt sett svona fram.

Þegar hugsað er aftur í tímann til þess tíma þegar ríkisstjórnin efndi til blaðamannafundar til að boða fagnaðarerindið, hvernig þessu skyldi varið, þá blönduðust inn í það aðrir stóratburðir sem voru að ganga í gegn á næstu dögum þar á eftir, þ.e. þegar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, ákvað að draga sig út úr stjórnmálum á Íslandi. Þetta var eitt af hans síðustu verkum.

Virðulegi forseti. Þó að alltaf sé hægt að ræða það og skiptast á skoðunum um hvernig þessu sé ráðstafað og hvað sé gert og sitt sýnist hverjum, þá eru samt sem áður hlutir í frumvarpinu sem mikil samstaða er um að fara í, t.d. nýbyggingu við Landspítala, sem stundum er kallað háskólasjúkrahús, Landspítala – háskólasjúkrahús eða hátæknisjúkrahús ætlaði ég frekar að segja sem stundum er notað um þessa byggingu þó svo að skiptar skoðanir séu um hvað felist í hátæknisjúkrahúsi. Kannski er betra að nota annað orð eins og komið hefur hér fram, ég man ekki hvort það var fyrst hjá hæstv. forsætisráðherra, að við erum að tala um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss. Það getur verið að það sé betra.

En af því að ég er farinn að ræða það, virðulegi forseti, ætla ég sérstaklega að fagna því sem þarna kemur fram og minnast aðeins á tillögu til þingsályktunar, sem ég var 1. flutningsmaður að ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, sem var lögð fram 3. febr. 2004 og rædd 4. mars og vísað til nefndar og fékk ágætisumsagnir frá þeim aðilum sem málið var sent út til. Í þeirri þingsályktunartillögu, virðulegi forseti, var það nefnt og settur sérstakur fókus á að þegar kæmi til sölu Landssímans yrði stór hluti af söluandvirði Símans notaður til að skapa þjóðarátak, þjóðarsátt og þverpólitíska sátt um Landspítala fyrir Landssíma, eins og sagði í þingsályktunartillögunni. Því hlýt ég, virðulegi forseti, að fagna mjög þeim kafla í frumvarpi þessu þar sem kemur fram að áætlað er að verja 18 milljörðum kr. á næstu árum í þetta þjóðarátak sem ég hygg að verði þverpólitískt og vona að verði þverpólitísk samstaða um að byggja þótt við séum ekki að leggja til fjármuni í að byggja það allt en gott er verkið þegar hafið er og farið er af stað með eins og hér er gert ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan var rætt um gamla fólkið. Við teljum okkur oft hafa sett fram sterk rök fyrir því að gamla fólkið gleymist oft og við höfum gagnrýnt slíkt. Í áðurnefndri þingsályktunartillögu er það nefnt að skoða ætti hver framtíðarnotkun Borgarspítalans yrði. Það er nefnt, virðulegi forseti, í þingsályktunartillögunni að það verði skoðað alveg sérstaklega hvort nýta megi þá byggingu undir dvalarheimili fyrir aldraða og ég hvet, virðulegi forseti, hæstv. heilbrigðisráðherra til, ef hann heyrir mál mitt, að það verði gert og skoðað vegna þess að mikil þörf er fyrir dvalarheimili fyrir aldraða og hún eykst vegna þess hve þjóðin er að eldast.

Jafnframt sagði ég líka, virðulegi forseti, í tillögunni að það mætti hugsanlega kanna hluta af því húsnæði undir sjúkrahótel eða sem kannski er mikilvægara að byggja sjúkrahótelið við væntanlega viðbyggingu eða nýbyggingu Landspítalans sunnan við Hringbraut. Sjúkrahótelið er nefnilega ákaflega mikilvægur liður í rekstri heilbrigðisþjónustunnar og léttir á spítalanum sjálfum og er þar með miklu ódýrari stofnun ef svo má að orði komast.

Þess má t.d. geta, virðulegi forseti, að ég hef heyrt sögur af því að Landspítalinn sé yfirfullur núna og margt fullorðið fólk liggi þar sem ekki þarf endilega að liggja á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og pláss sé á ýmsum stofnunum úti í bæ en ekki sé hægt að færa það þangað vegna þess að starfsmenn vantar á þær stofnanir sem við köllum stundum dvalarheimili eða elliheimili.

Þetta vildi ég láta koma fram í inngangi mínum, virðulegi forseti, um þennan þátt. Ég endurtek og fagna því að þessi hugmynd hafi fengið stuðning ríkisstjórnar. Það var reyndar fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem setti hana fram á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa legið á Landspítala og ég fagnaði því að sjálfsögðu strax að fá svo öflugan bandamann að tillögu minni.

Hvenær bygging hefst ætla ég ekki að eyða tíma í núna. Vonandi verður unnið vel að því verki. Mig minnir að á næstu dögum eigi að skýra frá hugmyndasamkeppni um bygginguna og verður gaman að sjá hvernig hún verður. En grundvallaratriðið er, virðulegi forseti, að þverpólitísk samstaða sé um það á Alþingi að hefja þetta verk og það er vel. Þjóðin fær þá sinn þjóðarspítala fyrir þann mikla auð sem þjóðin sjálf hefur skapað í Póst og síma sem í lokin hét Landssíminn.

Gaman er að segja frá því, virðulegi forseti, að í fyrrnefndri þingsályktunartillögu er talað um að það mætti fá 35–40 milljarða fyrir Símann en við það að salan dróst, hætt var við hana á sínum tíma við erfiðar aðstæður í heiminum, þá hækkaði verðgildið og fékkst svo gott verð sem raun ber vitni fyrir Símann þó að ég taki það skýrt fram að um það var að sjálfsögðu ágreiningur á Alþingi. Við í Samfylkingunni töldum t.d. að ekki ætti að selja grunnnetið með.

Ég ætla aðeins að koma að einum þætti til viðbótar, virðulegi forseti, þ.e. framkvæmdum í þágu geðfatlaðra. Reiknað er með 1 milljarði á næstu 3–4 árum eða á árunum frá 2005 þar sem veittar eru 200 millj. kr. núna í ár og síðan 200 millj. kr. 2007 og 300 millj. kr. árið 2008 og 2009, samtals 1 milljarður kr. Ég tel mikla þörf á að þetta sé gert og tel að þurfi reyndar að fara miklu hraðar í úrbætur í málefnum geðfatlaðra. Án þess að ég ætli að gera það að umræðuefni hér og nú, þá hef ég fengið — ég veit ekki hvaða orð, virðulegi forseti, ég má nota yfir það — lýsingu frá Íslendingi, þegni í þessu landi sem má búa við að hafa ekki fengið nein úrræði frá kerfinu til að vista einhverfan son sinn, ungling, sem er 16 ára gamall. Og að heyra þá lýsingu, virðulegi forseti, frá þeim aðila hvernig hann lýsir baráttu sinni við kerfið, hvernig hann lýsir því hvað líf hans breytist mikið við að þurfa sjálfur fyrir utan skólagöngu að sjá um þennan son sinn er allsvakalegt. Ég hygg að ef fleiri alþingismenn fengju að heyra þá lýsingu eða lesa um það sem þarna er, þá ættu menn að einhenda sér meira út í að finna úrlausn fyrir geðfatlaða einstaklinga vegna þess að á því er sannarlega mikil þörf. Ég ætla ekki að fara frekar út í það, virðulegi forseti, á þeim stutta tíma sem ég hef. En þetta kom upp í hug minn, virðulegi forseti, þegar ég las tilvitnun í lög um réttindi sjúklinga sem ég setti inn í þingsályktunartillögu mína sem röksemd fyrir þessu, þar sem stendur í 3. gr., með leyfi forseta:

„Sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita.“

Ég tel það ekki fullkomna heilbrigðisþjónustu, virðulegi forseti, að foreldrar þurfi jafnvel nánast að leggja vinnu sína og einkalíf í rúst við að annast það sem við ætlum samfélaginu að gera í þessum efnum og ekki meira um það hér að sinni.

Kem ég þá að öðru áhugamáli mínu. Fram kemur að veita á fé til ýmissa samgöngubóta af þessum símapeningum og ég fagna því að þeir peningar eru viðbótarpeningar. Þeir koma ekki í staðinn fyrir aðrar peningaupphæðir sem koma til Vegagerðarinnar af mörkuðum tekjustofnum hennar eins og af bensíngjaldi og olíugjaldi. Þær verða ekki skertar á næstu árum heldur kemur þetta inn sem viðbót, eins og kom fram í stuttu andsvari hæstv. utanríkisráðherra, fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, við mig þegar málið var fyrst rætt. Það er auðvitað fagnaðarefni. Við skulum halda því til haga að framkvæmdir í vegamálum verða skornar niður um 6 milljarða kr. á árunum 2004–2006. Hér eru verkefni tekin fyrir sem ég hygg að samstaða sé um eins og framkvæmdir við Sundabraut, sem ég tek skýrt fram og vil ítreka að eru ekki eingöngu mál höfuðborgarsvæðisins og þeirra sem búa hér. Þær eru eins og aðrar samgöngubætur á landinu — fyrir okkur öll.

Við sérmerkjum ekki einstakar framkvæmdir sem framkvæmdir fyrir tiltekna íbúa. Sem dæmi má nefna að ég hef aldrei heyrt að Hvalfjarðargöng væru gerð fyrir íbúa Skorradalshrepps, eða hvað hann heitir sá ágæti hreppur sem liggur að þeim göngum. Þau eru fyrir landsmenn alla. Þannig verður auðvitað með allar framkvæmdir, sama hvort það er Sundabraut, framkvæmdir á norðausturhorni landsins eða jarðgöng úti á landi eins og Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng eða Héðinsfjarðargöng, svo að ég nefni eitthvað í þessum efnum. Ég fagna því þeim peningum sem þar eru komnir inn og vona að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist sem allra fyrst og málið verði leyst með úrskurði hæstv. umhverfisráðherra um þau mál sem enn er deilt um þannig að hefja megi frekari hönnun og undirbúning framkvæmda en hér er gert ráð fyrir að þær eigi að hefjast árið 2007.

Jafnframt eru settar upphæðir í aðra vegi og aðrar framkvæmdir og því skipt niður á kjördæmi landsins. Ég vil halda því til haga að ef maður skiptir upphæðinni allri niður þá sér maður að að meðtöldu þjóðarátakinu, þjóðarsjúkrahúsi fyrir alla Íslendinga sem staðsett verður á höfuðborgarsvæðinu, ásamt öðrum framkvæmdum sem ætla má að ráðist verði í á höfuðborgarsvæðinu, fara 30 milljarðar kr. af þeim 43 milljörðum kr. sem til þessa svæðis. Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna harðrar umræðu sem varð við afgreiðslu samgönguáætlunar þar sem deilt var um framkvæmdir. Þá létu höfuðborgarþingmenn ýmis orð falla. Mig minnir að einn þingmaður hafi sagt að þetta yrði svona núna en landsbyggðarmenn skyldu passa sig næst, án þess að ég nefni nöfn í þeim efnum.

Mér virðist, virðulegi forseti, að um 1.800 millj. kr. af þessum peningum komi í hlut Norðvesturkjördæmis, um 1,5 milljarðar kr. til Norðausturkjördæmis og sama í Suðvesturkjördæmi eða um 4,8 milljarðar kr. alls. Óskipt getum við svo sett, í formi nýsköpunar, fjarskipta eða til Landhelgisgæslunnar, um 8 milljarða kr. samtals sem þarna koma. Það er rétt, virðulegi forseti, að þetta komi fram að fram vegna þess að þetta skiptist ekki kannski ekki alveg eftir kjördæmum. En ég vil ítreka það sem hefur komið fram, að þetta liðkar til fyrir fjárveitingum af fjárlögum næstu ára til ýmissa brýnna verkefna. Ég hika ekki við að nefna ýmis brýn verkefni í samgöngumálum á landsbyggðinni sem hljóta að taka til sín töluvert fjármagn á næstu árum. Þar er mikið verk að vinna.

Í lokin, varðandi fjarskiptasjóðinn sem á að stofna, á að gefa GSM-samband á flestum þjóðvegum landsins, hringveginum og öðrum vegum þar sem gott er að koma því við. Eins verður hægt að skapa íbúum landsbyggðarinnar, í mörgum dreifðum og smáum byggðarlögum, þau skilyrði að þeir geti fengið háhraðatengingar. Auðvitað ber að fagna því að þetta skuli sett hér inn en ég vil aðeins segja að það var ekki þörf á að selja Símann til að gera þetta þarfa átak. Það er auðvitað mjög alvarlegt að það sé fyrst árið 2006 eða jafnvel árið 2007 að loksins fáist niðurstaða í þau mál. Hún hefði auðvitað átt að vera komin fyrir lifandis löngu. Það að byggðarlög á landinu skuli ekki öll hafa aðgang að háhraðatengingu, t.d. vegna skólastarfs, vegna fjarnáms, er náttúrlega þannig að ekki er annað hægt en að minnast á það og gagnrýna, eins og við höfum oft gert í ræðustól á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur verið ótrúlega sinnulaus gagnvart þessum litlu byggðarlögum og þörf fólks fyrir að sitja við sama borð og íbúar stærri staða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, sem fengu slíkar tengingar hjá Símanum á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Þar sem tíma mínum er að ljúka þá ætla ég að ítreka að ég er sérstaklega ánægður með það sem hér kemur fram og ég hef notað mest af tíma mínum til að ræða, þ.e. þá fjármuni sem settir eru í það þjóðarátak, sem við höfum kosið að kalla svo, að byggja nýjan Landspítala. Vonandi verður þverpólitísk samstaða um það, þjóðarátak þar sem þjóðin fær Landspítala fyrir Landssíma.