132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt og má til sanns vegar færa og ég hef jafnan verið talsmaður þess að við styrktum velferðarþjónustuna og innviði samfélagsins, það sem styrkir okkur sem samfélag og sem efnahagseiningu.

Varðandi þetta með tapið og hagnaðinn þá er ég fylgjandi blönduðu hagkerfi. Ég vil að á sumum sviðum nýtum við okkur kosti markaðar. Á öðrum sviðum tel ég að við eigum að standa saman að málum. Þar vísa ég í grunnþjónustu samfélagsins. Varðandi þá almennu staðhæfingu að við hljótum alltaf að velja markaðsleiðina þá verð ég að segja það að ég hef fengið nóg af þeirri áráttu og tilhneigingu ríkisstjórnarinnar, og stjórnarmeirihlutans sem hún styðst við, að hlaða undir fjármálamenn á Íslandi sem eru (Forseti hringir.) að gleypa nánast allt samfélagið (Forseti hringir.) með húð og hári.