132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:39]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér er hreyft afskaplega stóru og mikilvægu máli og það er mikilvægt að í þeirri umræðu sé útgangspunkturinn sjálfstæði ákæruvaldsins. Fyrir liggur að fulltrúi ákæruvaldsins hefur gefið sér tíma til þess að skoða og yfirfara forsendur frávísunardóms Hæstaréttar og það er afskaplega mikilvægt að fulltrúi ákæruvaldsins hafi svigrúm til þess að fara yfir þær forsendur og hefur lýst því yfir að í framhaldinu muni hann bregðast við. En auðvitað hljótum við að velta meðferð málsins fyrir okkur, með hvaða hætti það megi gerast að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur skuli vísa málinu frá og telja það vanreifað þannig að ekki sé hægt að taka efnislega afstöðu til þess. Hvernig má slíkt gerast? Auðvitað hlýtur það að þurfa skoðunar við.

Jafnframt hljóta menn að velta því upp hvort rétt sé upp byggt þegar fulltrúi ákæruvalds sinnir bæði rannsókn og síðan ákæru málsins, hvort þurfi þar aðskilnað á milli. Meginatriðið er að halda ró sinni og gefa fulltrúa ákæruvaldsins það svigrúm sem nauðsynlegt er. Við þurfum að horfa á og einblína á sjálfstæði ákæruvaldsins vegna réttarríkisins og það gerum við ekki með stórum orðum.