132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:47]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða og einkanlega varnarræður fulltrúa sjálfstæðismanna hér á þingi. Ræður þeirra hafa fyrst og fremst gengið út á það að hér sé um að ræða einhvers konar afskipti af ákæruvaldinu og meðferð málsins. En hvað eru ummæli hæstv. dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni annað en bein afskipti af málinu? Hæstv. dómsmálaráðherra er ekki einhver náungi úti í bæ sem hefur ekkert um málið að segja, sem hefur einhver viðhorf til málsins. Hann er yfirmaður ákæruvaldsins í landinu og honum er ekki ætlað að gefa því skýr fyrirmæli um hvernig fara eigi með málið. Málið er og hefur að hluta til verið hjá dómstólum og verður þar áfram, öðru hefur verið kastað á brott. Þar af leiðandi er málið ekki lengur hjá dómstólum. Ákæruvaldið hefur núna tekið þá ákvörðun að færa það á milli stofnana, þ.e. færa það frá ríkislögreglustjóra til ríkissaksóknara. Við hljótum öll að fagna því í ljósi þess hvernig þetta mál hefur þróast undanfarin ár.

Afskipti dómsmálaráðherra af þessu máli eru með öllu ólíðandi og við köllum eftir skýringum á þeim. Við erum að reyna að fá skýringar á því hvernig á því standi að hann skuli með þessum orðum sínum, þegar blekið er vart þornað af dómi Hæstaréttar, stíga fram og segja: Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð. Það er það sem hæstv. ráðherra segir þegar málinu hefur á ný verið vísað til ákæruvaldsins. Hæstv. dómsmálaráðherra er yfirmaður ákæruvaldsins og honum ber að gæta hófs í orðum sínum. Það er ekki hans að leggja línurnar fyrir óháð og frjálst ákæruvald í þessu landi því að þá búum við ekki í réttarríki.