132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Alþjóðlegar stofnanir ráðleggja að öldruðum verði tryggð afkoma í gegnum þrjár stoðir, frjálsan sparnað, skyldusparnað í lífeyriskerfi og almannatryggingar. Við höfum verið að byggja upp kerfi nákvæmlega á þennan hátt. Þetta tekur auðvitað tíma, það tekur langan tíma að byggja upp lífeyristryggingakerfi í gegnum lífeyrissjóði, svo tekur líka tíma að byggja upp sparnað. Á meðan er kannski of mikill þungi á hlutverki almannatrygginganna hjá okkur en hlutverk almannatrygginga er mjög mikilvægt í þessu kerfi því að við vitum líka að ekki mun öllum takast á sama hátt að byggja upp eigin sparnað á starfsævi sinni og ekki hafa allir jafngóðar tekjur til að byggja upp inneign sína í lífeyriskerfinu. Þess vegna þarf almannatryggingakerfið að hafa þar áhrif til þess að hjálpa þeim sem verr eru staddir.

Það hjálpar hins vegar ekkert í umræðunni að menn komi hér hvað eftir annað með algjörlega ómarktækan samanburð, beri saman tölur og miði við launataxta sem hætt er að nota, launataxta sem menn gerðu samkomulag um að taka út úr taxtakerfinu og miða ekki við í framtíðinni, þegar allur samanburður við neysluvísitöluna sýnir að aldraðir hafa notið mjög vel þess bata í hagkerfinu sem allir aðrir hafa notið og jafnvel umfram aðra. Það hjálpar ekkert í þessari stöðu.

Ég velti því líka fyrir mér að einn hluti af þessu vandamáli er greinilega hvernig við stillum saman tekjutengingunum, hvernig félagsmálaráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem innleiddi tekjutenginguna getur komið hér upp hvað eftir annað og barið sér á brjóst og verið með heitstrengingar um það hvað hún ætli að gera þegar og ef hún einhvern tíma kemst í ríkisstjórn. Er þetta virkilega trúverðugt, frú forseti, og mun þetta hjálpa okkur í því að leysa þann vanda sem þetta fólk er í?