132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra og sömuleiðis þátttöku hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir að dæmið líti allt öðruvísi út hjá sér en á blöðum þeim sem hv. frummælandi lagði fyrir þingheim nú rétt í þessu. Og hvað segir hæstv. fjármálaráðherra? Hann segir að hér sé verið að bera fram tölur sem séu ómarktækur samanburður.

Ætla þessir hæstv. ráðherrar að neita því að þriðjungur aldraðra eða um 11 þúsund manns séu með um 110 þús. kr. á mánuði eða minna? Er það vitleysa sem haldið hefur verið fram í umræðunni? Komi þeir þá og haldi því fram. Eða ætla menn að mótmæla því að einstaklingur sem er með 110 þús. kr. mánaðartekjur greiði nú 13% í skatt, ætla þeir að mótmæla því? Þeir geta það ekki vegna þess að það er rétt.

Aldraðir búa við skert skattleysismörk. Aldraðir hafa þurft að þola stóraukna skattbyrði, loforðin um fjölgun hjúkrunarrýma hafa ekki verið efnd. Þetta eru staðreyndir sem við höfum verið að tína hér fram og Samtök aldraðra hafa verið að álykta um og Félag eldri borgara í Reykjavík. Eru þetta einhverjar vitleysur? Af hverju svara hæstv. ráðherrar á þennan hátt? Eða hvaða ástæður hafa aldraðir til þess að nota orð í ályktunum sínum eins og þau sem Félag eldri borgara gerir í ályktunum á síðasta aðalfundi sínum þar sem talað er um að öldruðum sé sýnd lítilsvirðing af stjórnvöldum, að marka þurfi heildarstefnu í málefnum aldraðra sem byggi á hugmyndafræði um jafnrétti og mannréttindi? Mundu eldri borgarar álykta á þessum nótum ef þeir teldu ekki á sér brotið?

Ég efast um að aldraðir, sem ég tel vera mjög seinþreytta til vandræða, noti svo stór orð í ályktunum sínum nema vegna þess að það er full ástæða til. Og ég held að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni verði að fara að taka alvarlega þau orð sem aldraðir beina til þeirra.