132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:12]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mitt mat að hæstv. heilbrigðisráðherra geti verið mjög stoltur af störfum sínum á vettvangi málefna aldraðra.

Það kom fram áðan hjá einum hv. þingmanni að stjórnarsinnar vöknuðu upp rétt fyrir kosningar og muni þá eftir öldruðum. Þetta er algjörlega fráleitt. Það er munað eftir öldruðum allt kjörtímabilið. Og það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra varðandi hjúkrunarheimilin að í samkomulaginu sem var gert við aldraða 19. nóv. 2002 var gert ráð fyrir að hjúkrunarrýmum yrði fjölgað um 168 rými á árunum 2004 og 2005 og árlegur rekstrarkostnaður vegna þessara rýma yrði um 800 millj. kr. Við þetta var staðið og þetta kom fram í ræðu hæstv. ráðherra.

Eins kom fram hjá honum að verið er að fara yfir samkomulagið og greina það en of snemmt er að segja til um öll atriði. En það er alls ekki þannig að vaknað sé upp rétt fyrir kosningar og þá sé farið að gera hlutina. Nei.

Ég vil líka minna á að nýbúið er að skrifa undir samning við Reykjavíkurborg um 110 hjúkrunarrými í Sogamýrinni. Auðvitað verður staðið við það samkomulag. Það er í skoðun að setja upp rými á svokallaðri Lýsislóð, 90 rými, ef samningur næst þar. Að sjálfsögðu verður staðið við hann. Það er því verið að tala um 200 ný rými á þennan hátt á næstunni, 100 rými á ári. Sumir tala um stofnanavæðingu, að við séum komin of langt í stofnanavæðingu, ég held nú samt ekki af því að það eru biðlistar. En það er algjörlega fráleitt að hægt sé að saka hæstv. heilbrigðisráðherra um að standa sig ekki í stykkinu gagnvart öldruðum. Mikil útgjöld fara til aldraðra, staða þeirra er mjög misjöfn. Verið er að reyna að aðstoða þá sem standa höllustum fæti og það sýndi ráðherrann vel fram á í ræðu sinni.