132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum orðið rækilega vör við að víða er pottur brotinn í málefnum aldraðra. Það þarf að taka rækilega til hendinni. Við státum okkur af því að vera ein ríkasta og yngsta þjóð í Evrópu og ætti ekki að vera skotaskuld úr því að bæta úr ástandinu.

Eitt brýnasta málið fyrir okkur stjórnmálamenn að beina kastljósinu að eru dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra. Á dögunum var ég staddur á dvalarheimili aldraðra á Akranesi, Höfða. Þar var aðbúnaður allur til fyrirmyndar. Samt sem áður voru dæmi um að aldraðir þyrftu að deila herbergi með ókunnugum. Því verðum við stjórnmálamenn að taka á. Við þurfum að gæta að því að þær kynslóðir sem koma núna inn á dvalarheimili eru vanar öðrum aðbúnaði en kynslóðirnar á undan þeim.

Það er brýnt að við stjórnmálamenn förum rækilega yfir kjör aldraðra þannig að eitthvert samræmi sé í þeim aðbúnaði sem boðið er upp á, bæði hvað varðar hjúkrunar- og dvalarheimili. Ég hef undir höndum mjög slæma greinargerð um aðbúnaðinn, m.a. á Sólvangi í Hafnarfirði. Úr því verður að bæta. Þar er reglan sú að þrír séu á herbergi og meira að segja dæmi um að fimm séu á herbergi. Þetta er óviðunandi og þessu þarf að breyta. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort gerð hafi verið samræmd úttekt á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og hvort í framhaldinu eigi ekki að gera bragarbót á aðstöðunni, sérstaklega þar sem skórinn kreppir hvað mest.