132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra í því að það eru vissulega töluvert miklar framfarir og menn hafa nálgast mjög lög um fjárreiður ríkisins frá því hæstv. ráðherra var í fjárlaganefnd því nokkuð er um liðið síðan það var. En samt sem áður verð ég að segja að mér þykir það ganga ansi hægt því að enn er víða pottur brotinn og það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að hinar stóru tölur hafa þær skýringar sem hæstv. ráðherra fór hér með, þ.e. sala Símans. Við getum reyndar deilt um hvort það sé fyllilega rétt að því máli staðið gagnvart lögum um fjárreiður ríkisins en látum það vera.

Ég ætla að skýra hæstv. ráðherra frá, og ég vona að það verði honum lexía og hann muni ráða enn betri bót á, að fyrir ári síðan þegar við ræddum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 þá hafði fjárlaganefnd ekki fengið eitt einasta erindi frá ríkisstjórn þar sem gerð var grein fyrir því að eitthvað ófyrirséð hefði verið ákveðið, við fengum ekki eina einustu tilkynningu en samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber um leið og slík ákvörðun hefur verið tekin að tilkynna það fjárlaganefnd. Á þessu ári hafa framfarir orðið alveg gífurlegar, þ.e. frá núll og upp í sjö. Við höfum fengið sjö erindi á þessu ári þar sem okkur hefur verið tilkynnt um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi slík fjárútlát en ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að þau sjö atriði sem okkur hefur verið tilkynnt um eru aðeins lítill hluti þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið, ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir, en ég vona að hæstv. ráðherra komi upp nú í andsvari og tilkynni að á þessu verði breyting og þegar við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006, eftir ár, verði hægt að segja frá því að okkur hafi verið tilkynnt um allar ákvarðanir sem teknar hafa verið eins og lög um fjárreiður ríkisins gera ráð fyrir.