132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005. Ég held að áður en ég fer í einstaka efnisþætti frumvarpsins sé nauðsynlegt að átta sig á því hlutverki sem fjáraukalög gegna. Hver er stjórnsýsluleg staða fjáraukalaga innan fjárlagaársins og innan laga um fjárreiður ríkisins.

Að hausti er unnið fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár sem fer í gegnum þingið til meðferðar fjárlaganefndar Alþingis og er afgreitt skömmu fyrir jól. Þar eru lagðar línur í efnahagsstjórninni, fyrir þróun efnahagsmála og jafnframt kveðið á um hver gjöldin skuli vera, skipt á einstaka gjaldaliði, áætlaðar tekjur o.s.frv.

Þingið starfar áfram. Eftir áramót kemur þing aftur saman og þá eru samþykkt lög og ýmsar samþykktir gerðar sem geta haft áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs innan þess árs. En jafnframt er kveðið strangt á um það í fjárreiðulögum, sem er gott, að ekki megi stofna til útgjalda af hálfu ríkisins, skuldbindinga eða annars, nema að fyrir liggi samþykki Alþingis. Það er meira að segja bundið í stjórnarskrá. Þess vegna er mjög mikilvægt að vinnu Alþingis sé hagað þannig að hún uppfylli lagaskyldur en einnig að sem tryggast sé að þingið ákveði fjárlög ríkisins, útgjöld og tekjugrunn.

Á undanförnum árum hefur tíðkast að leggja fram fjáraukalagafrumvarp að hausti, svipað og við erum með í höndum, sem tekur á breytingum á tekjuforsendum ríkissjóðs en kveður einnig á um ákvarðanir um og tillögur að nýjum útgjöldum. Í lögum um fjárreiður ríkisins er kveðið á um að heimilt sé að breyta fjárlögum innan ársins ef óumflýjanlegar aðstæður kveða á um það eða Alþingi samþykkir annað. Það má gera hvenær sem er en þó að undangengnu samþykki Alþingis, nema um náttúruvá eða eitthvað slíkt sé að ræða þannig að ekki sé hægt kalla Alþingi skjótt saman en það skal gert svo fljótt sem unnt er.

Það er fjarri því að vinnulagið á Alþingi sé samkvæmt þeim lögum. Því fer fjarri. Við höfum þetta frumvarp sem gott dæmi um það. Hér eru lögð til útgjöld upp á hundruð milljóna kr., jafnvel milljarða kr. Mörg þeirra útgjalda eru í hæsta máta eðlileg og ekkert við þeim að segja. Þau eru brýn og nauðsynleg. Mörg af þeim útgjöldum koma til vegna þess að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi valdi að beita blekkingum við fjárlagagerðina á sínum tíma, vafalaust til að fá betri niðurstöðutölu. Hér hefur Háskólinn á Akureyri verið nefndur. Það lá fyrir hjá skólastjóranum og hjá öllum sem komu að þeim málum, að Háskólann á Akureyri mundi skorta fé á árinu. Við lögðum fram breytingartillögu við afgreiðslu fjárlaga síðasta haust sem laut að því að rétta það a.m.k. að hluta. Það lá alveg fyrir. En samt valdi ríkisstjórnin, þáverandi fjármálaráðherra og meiri hluti Alþingis, að tuddast áfram og samþykkja fjárlög sem vitað var að voru alls ekki í takt við raunveruleikann og ekki heldur í takt við þann pólitískan vilja Alþingis til þeirrar góðu starfsemi sem þar er rekin. Fleiri slík dæmi eru í þessu frumvarpi, um lélega vinnu af hálfu meiri hluta Alþingis og þeirra ráðherra sem hlut eiga að máli.

Ég hef á Alþingi ítrekað lagt til að lögum um fjárreiður ríkisins verði breytt og staða Alþingis gagnvart fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga verði styrkt með því að skylt verði að leggja fram fjáraukalög að vori, við þinglok að vori verði lögð fram fjáraukalög sem taki til þeirra breytinga sem þegar eru orðnar með samþykktum Alþingis, öðrum breytingum í samfélaginu og nýjum áherslum. Það væri síðasta verk þingsins fyrir vorið og auk þess yrði strax að hausti lagt fram fjáraukalagafrumvarp, eftir því sem þörf er á, til að taka á þeim breytingum sem menn vilja leggja fyrir þingið eða eru óumflýjanlegar.

Menn hafa áður rætt þetta á þinginu. Á síðasta þingi fengu hugmyndir um slíkt vinnulag vaxandi undirtektir, ekki síst meðal þingmanna sem telja sig til stjórnarmeirihluta sem eru oft á tíðum bara í því hlutverki að stimpla ákvarðanir framkvæmdarvaldsins, t.d. margar af þeim tillögum sem liggja fyrir í frumvarpinu hér.

Ég vil því árétta þessa tillögu mína um breytingar sem gera verði til þess að vinna Alþingis verði skilvirkari og samkvæmt lögum um meðferð og framkvæmd fjárlaga, að Alþingi ákveði fyrst og síðan vinni framkvæmdarvaldið eftir þeim ákvörðunum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum líka lagt áherslu á að gera þingið sterkara í vinnubrögðum sínum og færara um að takast á við þau flóknu verkefni sem lúta að efnahags- og fjármálum á vegum ríkisins. Eftir að Þjóðhagsstofnun sáluga var lögð niður er engin sjálfstæð eða óháð efnahagsskrifstofa sem þingið getur leitað til eða einstakir þingmenn. Það var hægt að leita til Þjóðhagsstofnunar, sem gaf a.m.k. í megindráttum sjálfstæð álit og stundum svo sjálfstæð að það þótti ástæða til að leggja hana niður eins og frægt er orðið. Það var mjög umrætt í þingsölum að ástæðan fyrir því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður var að hún hafði vogað sér að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum.

Núna erum við algjörlega háð efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins varðandi það að leggja mat á hinar ýmsu efnahagslegu stærðir og önnur atriði er lúta að gerð, forsendum og framkvæmd fjárlaga. Við eigum Ríkisendurskoðun að í ákveðnum þáttum við framkvæmd fjárlaga og það er gott. En annars er það því miður mun magrara en áður var. Því höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt til að stofnuð verði sérstök efnahagsstofa við þingið, sjálfstæð stofa sem starfi á vegum þingsins en ekki á vegum framkvæmdarvaldsins, sem þingmenn og þingnefndir geti þá leitað til um sjálfstætt mat og sjálfstæða vinnu, tillögur og mat á tillögum í efnahags- og fjármálum. Eins og er erum við fullkomlega háð framkvæmdarvaldinu sjálfu. Við höfum reyndar bankana, hinir ýmsu viðskiptabankar eru með efnahagsmál og vinna afmörkuð verkefni á sviði efnahagsmála, en þeir útreikningar eru yfirleitt á grundvelli þeirra eigin forsendna og mati á þeirra eigin starfsemi en ekki á sömu forsendum og þingið vinnur eftir. Þetta vildi ég gera að umtalsefni, frú forseti.

Það er athyglisvert að sjá hvernig tekjuliðir þessa frumvarps hafa breyst. Hæstv. fjármálaráðherra benti á að tekjur hefðu farið umtalsvert fram úr því sem áætlað var og fagnar því að ríkissjóður skuli fitna sem því nemur. Vafalaust finnst stjórnarliðum það létta mönnum róðurinn að lækka skattana, lækka tekjuskattinn á hátekjufólki, skatta sem koma fyrst og fremst hátekjufólki til góða þegar auknar tekjur koma inn í ríkissjóð. Hverjar eru þessar auknu tekjur sem er hér verið að mæra? Halda menn að þær séu varanlegar? Nei, frú forseti. Það eru tekjur af þenslu, vegna viðskiptahalla og sölutekjur af Landssímanum sem hefði betur verið í þjóðareigu áfram. Tekjurnar af sölu Landssímans koma ekki inn aftur en meðan þjóðin átti hann skilaði hann arði sem kom reglulega inn í ríkissjóð.

Nei, tekjur af stimpilgjöldum, tekjur af auknum umsvifum, sérstaklega á húsnæðis- og fasteignamarkaði fóðra tekjuaukninguna. Hverjir borga þessi stimpilgjöld? Jú, ungt fólk sem kaupir hús eða færa sig á milli húsa, úr minna húsi í stærra. Þetta fólk verður að borga aukna skatta til ríkisins í formi óréttlátra stimpilgjalda. Dragist síðan húsnæðismarkaðurinn saman skreppur sá tekjustofn líka saman.

Menn monta sig af því að tekjur af sköttum af vöru og þjónustu hækki um rúma 9 milljarða kr. frá áætlun. Nú, er það ekki viðskiptahallinn, og viljum við hafa hann? Nei, þessi tekjustofn er líka falskur og ekki til að monta sig af. Þótt mönnum finnist gott að fá krónur í ríkiskassann þá er ekki sama hvernig þær koma.

Einnig er talað um fjármagnstekjuskattinn af sölu Símans, drottinn minn dýri. Ríkið greiðir sjálfu sér fjármagnstekjuskatt upp á nærri 6 milljarða kr. af sölu Símans. En eins og ráðherra minntist á áðan þá verður jú að færa til gjalda söluupphæð þannig að báðir liðir hækka sem því nemur. Þetta eru reikningskúnstirnar við að reikna saman tekjur og gjöld hjá ríkissjóði.

Lítum á hinar forsendurnar, á gengismálin. Lagt var upp með þá forsendu fyrir gengisþróun þessa árs að meðalgengi ársins yrði 120–125, það voru forsendur fjárlaga sem við störfum eftir. Svo seint sem í júní á þessu ári gaf fjármálaráðuneytið út spá sína fyrir árið. Þá hélt það að gengið yrði 119. Það hafði þó staðið í kringum 112–113 þá um langa hríð. Nú eru horfurnar á að gengið fyrir þetta ár verði að meðaltali niður undir 110. Síðustu fregnir herma að það gæti farið enn neðar. Það stendur í 103 rúmlega og greiningardeild Íslandsbanka spáir því að það eigi eftir að fara enn neðar, krónan eigi eftir að hækka enn meira á þeim mánuðum sem eftir lifa ársins, verði ekki breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hvaða áhrif hefur það?

Við erum einmitt með samþykktir hér frá samtökum fiskvinnslunnar, frá samtökum útgerðarinnar, frá samtökum ferðaþjónustunnar og frá fjölmörgum öðrum sem eru að reyna að basla í útflutningsgreinunum, útflutningsiðnaðinum og nýsköpuninni. Menn horfa á gengið síga stöðugt meir á ógæfuhliðina fyrir þessar atvinnugreinar og ekkert er gert. Ég tel það alvarleg skilaboð sem fjáraukalagafrumvarpið staðfestir hér, að það er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að gera neitt til þess að tryggja og bæta rekstrarstöðu útflutningsgreinanna. Það var spáð gengisvísitölu upp á 120–125 á þessu ári. Var sú spá merkileg? Spáin fyrir næsta ár hljóðar upp á 115. Að óbreyttu hefur enginn trú á því að það náist. Íslandsbanki segir að jafnvægisgengið liggi á bilinu 135 um nokkurn tíma til þess að jafnvægi náist í viðskiptum við útlönd.

Ráðherrann vék ekki að þeim alvarlegu hlutum sem eru að gerast í efnahagslífinu, hinni gríðarlegu skuldasöfnun, viðskiptahallanum við útlönd, háu gengi og erfiðri stöðu útflutningsgreinanna. Menn vita ekki sitt rjúkandi ráð hvernig bregðast á við. Þetta tel ég að ráðherra hefði átt að segja þó ekki væri nema eina setningu um, hafandi nýlega fengið ályktun t.d. frá samtökum fiskvinnslunnar þar sem þungum áhyggjum var lýst yfir stöðu mála hvað varðaði samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna og var þar krafist aðgerða þegar í stað til þess að rétta stöðuna. En það heyrist ekki bofs í þá veruna, þetta er víst allt í lagi að mati ráðherra.

Frú forseti. Það er hægt að fara í gegnum þetta frumvarp og fara yfir einstakar tölur. Sumum ráðuneytum virðist vera reistur sjálftökuréttur úr ríkissjóði. Tökum utanríkisráðuneytið sem dæmi, bara til að eitt sé nefnt. Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytisins verði aukin um 499 millj. kr. á þessu ári. Þar eru lagðar til 50 milljónir til að mæta uppsöfnuðum halla á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins og 276 millj. kr. framlagi til sendiráða. Þetta er bara viðbót á fjáraukalögum sem einungis eiga að taka til brýnna og óhjákvæmilegra atriða. En þarna er verið að leika sér með þetta og fara út og inn. Svona er hægt að fara víðar um.

Ég spyr fjármálaráðherra: Er hann sáttur, ætlar hann að láta svona vinnubrögð viðgangast? Það fer engin efnisleg umræða fram á Alþingi um það hvort nauðsynlegt sé að auka þessi framlög til sendiráða, fjölga sendiherrum. Nei, þau eru ákveðin og koma svo eftir á til Alþingis til meðferðar. Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að segja að þetta sé nú bara gamalt og gott, þetta sé ekki verra en það var þegar hann var sjálfur í fjárlaganefnd?

Svo eru einstaka aðilar aðrir sem þykir ástæða til að standa ekki við samninga og ég minntist á í andsvari við ráðherra hér áðan. Við sjáum í fjáraukalagafrumvarpinu að utanríkisþjónustan, fjölgun sendiherra, fær sitt og ríkislögreglu- og vopnasveitir fá sitt. Það vantar ekki. En þegar kemur að því að efna hluta af kjarasamningi við starfsmenn hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, stuðningsfulltrúa og félagsliða, sem var samið um í upphafi þessa árs og átti að koma til framkvæmda 1. febrúar sl., er annað upp á teningnum. Samið var um sérstakar greiðslur vegna vinnufatnaðar sem starfsmenn verða að vera í á þessum vinnustöðum, 1.458 kr. á mánuði. Að vísu sagði hæstv. ráðherra hér áðan, og ég treysti því að það megi ganga að því sem vísu að hann standi við orð sín, að sé þetta kjarasamningur þá verði þessu þegar í stað kippt í liðinn. Þetta fólk var á félagsfundi í dag og ræddi þar stöðuna. Þar samþykktu starfsmennirnir ályktun og skoruðu á viðsemjendur sína, sem í meginatriðum er ríkissjóður, fjármálaráðherra, að standa við þá samninga sem gerðir hefðu verið um slíkar greiðslur. Því er borið við að ekki sé fé á fjárlögum. Drottinn minn dýri, fé á fjárlögum til að standa við kjarasamning við starfsmenn á Svæðisskrifstofum málefna fatlaðra. Nei, frú forseti.

Það er einmitt tilgangur fjáraukalaga að taka á ef kjarasamningar kveða á um viðbót og ég treysti því að hæstv. ráðherra láti ekki það mál sem ég hef rakið hér standa lengur (Forseti hringir.) út af borðinu, frú forseti.