132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:36]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005. Það birtist skýrt í þessu frumvarpi hve gríðarlega sterk staða ríkissjóðs er um þessar mundir og einnig má í því sjá merki um þau gríðarlegu umsvif sem eru í efnahagskerfinu.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir frumvarpinu og þar kemur sala Símans auðvitað fram, þær gríðarlegu tekjur sem komu inn í ríkissjóð að þessu sinni vegna sölunnar á honum. Þar er söluhagnaður upp á 57,5 milljarða tekjufærður. Það vekur auðvitað athygli, í framhaldi af því að hin miklu umsvif í efnahagskerfinu sjást, að allar hagstærðir sem lágu til grundvallar fjárlagafrumvarpinu sem var samþykkt fyrir tæpu ári hafa breyst. Það er nánast sama hvar gripið er niður í þeim efnum, það er greinilega mikið um að vera í okkar hagkerfi. Tekjurnar fyrir utan sölu Símans hafa vaxið mjög mikið frá fjárlögum sem gilda fyrir þetta ár þannig að allt ber þetta að sama brunni.

Gjaldahlið frumvarpsins er tæpum 16 milljörðum kr. hærri en fjárlögin segja til um. Þar spilar sala Símans stóra rullu þar sem ýmsir liðir koma þar inn til útgjalda á sama hátt og tekjur. Ef leiðrétt er fyrir sölu Símans eru þetta líklega um 3 milljarðar, eitthvað nálægt því, sem um er að ræða í auknum útgjöldum. Ég hef nú ekki skoðað það nákvæmlega en ég geri ráð fyrir að umfangið sé minna en oft hefur verið. Það breytir því ekki, eins og fram hefur komið í umræðum hér, að ákveðnir liðir í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru, eins og stundum er sagt, gamlir kunningjar og hafa verið hér í fjáraukalagafrumvörpum síðustu ára. (EMS: Allt of lengi.) Ég get tekið undir það sem fram kom hér fyrr í umræðunni að þessir hlutir þurfa að breytast og vonandi tekst að ná utan um það þannig að ekki þurfi að vera með sömu eða nánast sömu útgjaldaliði ár eftir ár í fjáraukalagafrumvarpi.

Samhliða þessum miklu umsvifum og auknu tekjum og því sem birtist í frumvarpinu er stór liður hér sem breytist frá fjárlögum. Lántökuheimild fjármálaráðherra lækkar úr 40 milljörðum kr. í 13,5. Það er mjög ánægjulegt að sjá fram á að skuldir ríkissjóðs séu að lækka verulega mikið, það er auðvitað framtíðarmál og ber að fagna því. Að sjálfsögðu vegur salan á Símanum þar þungt en það er eigi að síður staðreynd að skuldir ríkissjóðs lækka mjög mikið.

Lánsfjárjöfnuðurinn, samkvæmt þessu frumvarpi, er um 98 milljarðar kr. sem er auðvitað gríðarlega há fjárhæð. Ég heyri að hv. þingmenn Samfylkingar smella í góm en það er engu að síður staðreynd sem við horfum hér fram á.

Virðulegur forseti. Það er margt í þessu frumvarpi sem vert væri að fara í gegnum í smáatriðum. Við erum nú að byrja að fjalla um þetta í fjárlaganefndinni. Það er t.d. eitt atriði sem ég tel ástæðu til að nefna, sem er auðvitað mál sem við eigum eftir að fjalla mun betur um. Ég ætla svo sem ekki að fara fram á það við hæstv. fjármálaráðherra að hann fari yfir það mál í þessari umræðu. Það tengist heimildagrein í 4. gr. frumvarpsins þar sem er í lið 7.16 fjallað um heimild til að ganga til samninga um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík á grundvelli útboðs sem við þekkjum og fór fram fyrr á þessu ári. Þar er fjallað um hver hlutur ríkissjóðs er í þessu máli o.s.frv. Þetta mál er að mínu mati eitt af stærri málum í þessu frumvarpi. Hér er um að ræða mál sem á að teygja sig 35 ár fram í tímann, hvorki meira né minna.

Við ræddum í gær um frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Símans þar sem eru tillögur um að útgjaldaliðir teygi sig fram í næsta kjörtímabil og jafnvel fram yfir það. Hér erum við að tala um mál sem teygir sig 35 ár fram í tímann. Þetta þurfum við að fara í gegnum og finna leið til þess að meðhöndla með réttum hætti í þessu laga- og reglugerðarverki öllu saman sem við vinnum eftir. Ég hef fundið fyrir því að mikil samstaða er um þetta mál efnislega og ég lít svo á að það sé sameiginlegt viðfangsefni okkar í fjárlaganefndinni og víðar að finna lausn á því. Ég taldi ástæðu til þess, hæstv. forseti, að nefna þetta núna.

Eins og kemur fram í frumvarpinu snúa ýmsar útgjaldatillögur að því að bæta halla sem nokkrar stofnanir hafa verið að safna upp. Það á ekki, eins og við höfum margoft farið yfir í umræðum um fjárreiður ríkisins, að vera sjálfgefið að slíkur halli sé gerður upp. Við vitum að forstöðumenn ýmissa stofnana reka stofnanir sínar með miklum myndarbrag og gæta þess í hvívetna að halda fjárheimildir. Síðan eru aðrar stofnanir af ýmsum ástæðum, ég ætla ekkert að halda því fram að það sé af einhverjum slóðaskap eða slæmri stjórnun, gerðar upp með halla. Það hefur einnig brunnið við að jafnvel þær sömu stofnanir eru með ákveðnu millibili gerðar upp í fjáraukalögum. Við höfum margoft rætt þetta og ég hygg að menn séu almennt sammála um að fara þurfi yfir þetta. Við höfum m.a. farið yfir þetta í fjárlaganefnd með Ríkisendurskoðun, sem hefur fjallað um þessi mál, og ég hygg að menn séu sammála um að á þessu þurfum við að ná betri tökum.

Annað atriði vil ég líka nefna. Það er gert ráð fyrir að gera upp 50 millj. kr. halla á Tækniháskólanum, sem var lagður niður og sameinaðist Háskólanum í Reykjavík, eins og við vitum, og er eftir þá sameiningu einkarekin háskólastofnun. Það var að vísu gert ráð fyrir því í frumvarpinu um að leggja niður Tækniháskólann, sem fjallað var um í þinginu, að þar væri einhver halli sem þyrfti að gera upp út af fyrir sig. En ég bendi á að önnur stofnun hefur orðið til með samruna nokkurra stofnana, þ.e. Landbúnaðarháskóli Íslands, og þar situr eftir töluverður halli sem ég tel að menn þurfi að skoða sérstaklega. Ég hef áður nefnt að þetta þurfum við að fara yfir og skoða, bæði út af jafnræði og öðru, og gæta þess að gera öllum jafnt undir höfði.

Ég vil líka vekja athygli á öðru máli hér sem tengist sölu Símans. Ég heyrði það áðan að hv. þm. Jón Bjarnason var hálfpartinn að gera grín að því að ríkið væri að greiða sjálfu sér fjármagnstekjuskatt. Það er auðvitað sérkennilegt að ríkið greiði sjálfu sér fjármagnstekjuskatt en það er bara í samræmi við lög um fjármagnstekjuskatt. En þessu fylgir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær stóraukin framlög vegna aukinna skatttekna ríkissjóðs í formi fjármagnstekjuskattsins. Svona virkar þetta nú. Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu sem við erum hér að fjalla um er gert ráð fyrir því að jöfnunarsjóður fái yfir 600 milljónir í aukið framlag og ég geri ráð fyrir því að það sé að stærstum hluta, eða jafnvel að öllu leyti, vegna þessara mála. Sveitarfélögin í landinu njóta því ávinnings af þessum gjörningi og það er auðvitað ánægjuefni. Ég er alveg viss um að hv. þm. Jón Bjarnason er mér algjörlega sammála í því, því hann hefur margoft komið hér upp í ræðustól og rætt um fjármál sveitarfélaganna.

Einnig er vert að vekja athygli á því að undir liðnum Atvinnuleysistryggingasjóður er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái 518 millj. kr. lægra framlag en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Það stafar auðvitað af því að við erum hér að upplifa það að atvinnuleysi í landinu er minna en fjárlögin gera ráð fyrir sem nemur 0,4 prósentustigum og það skilar ríkissjóði beint sparnaði upp á 518 milljónir fyrir utan hversu ánægjulegt það er að atvinnuleysi skuli vera svona lítið um þessar mundir.

Á móti kemur annað mál sem er hér. Það er Fæðingarorlofssjóður sem samkvæmt frumvarpinu á að fá 350 milljónir til viðbótar. Það hefur líka verið þannig núna í tvö ár að við höfum þurft að auka við heimildir Fæðingarorlosfssjóðs til þess að standa undir hlutverki hans.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna hér annað mál. Ég sé ástæðu til þess að nefna Landspítala – háskólasjúkrahús. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 600 millj. kr. til að gera upp uppsafnaðan halla sem stóð miðað við síðustu áramót. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir uppgjöri á halla varðandi sjúkrahúsið. Í þeim upplýsingum sem við höfum fengið á þessu ári kemur í ljós að Landspítalinn verður væntanlega nánast í jafnvægi á þessu ári og það er auðvitað mjög ánægjulegt að upplifa það eftir ýmislegt sem á hefur gengið á undanförnum árum. Ég sé ástæðu til þess við þessa umræðu að hrósa sérstaklega stjórnendum Landspítala – háskólasjúkrahúss fyrir þann árangur sem virðist vera að nást þar, sem er mjög ánægjulegur. Ég tel ástæðu til að geta þess sem vel er gert og svo er í þessu sambandi.

Ég tek undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem vakti athygli á því að hér er ekki um að ræða neinar tillögur um aukin framlög til æðstu stjórnar ríkisins. Ég get tekið undir hrósyrði hans í garð Alþingis. Ég geri orð hans að mínum í því sambandi og sé ástæðu til þess að taka undir það. Á móti kemur, eins og hv. þingmaður nefndi, að það kom fram í fjárlaganefnd í morgun að við getum átt von á því að fá hingað tillögur um fjárheimildir til forsetaembættisins. Það hefur nú verið þannig undanfarin ár að hallarekstur hefur verið á því embætti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram í morgun gæti uppsafnaður halli í lok þessa árs verið nálægt 100 millj. kr. þannig að þar þarf greinilega eitthvað að taka á eins og víðar.

Hæstv. forseti. Ég vil líka, svona í samhengi við það að við erum hér að sjá fram á lækkaðar skuldir ríkissjóðs, nefna og leggja áherslu á það að samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki um rúmlega 1,3 milljarða kr. frá fjárlögum ársins. Það er sérstaklega ánægjulegt að við skulum upplifa það.

Eins og ég sagði í upphafi þá ber þetta fjáraukalagafrumvarp í megindráttum í sér sterka stöðu ríkissjóðs og það er ánægjuefni út af fyrir sig og allt gott um er það að segja. En ég vil víkja nokkrum orðum að þessum málum svona almennt séð. Ég hef áður sagt að ég tel eðlilegt að hér sé fjallað um fjáraukalög vor og haust og er um það sammála mínum ágæta kollega, hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Við höfum oft lagt á þetta áherslu og ég veit að aðrir félagar mínir í fjárlaganefnd hafa tekið undir það og eru því sammála. Ég vil því við þessa umræðu nefna þetta atriði og leggja áherslu á það.

Einnig vil ég nefna annað sem hefur komið fram í umræðunni. Það varðar fjárreiðulögin og samskipti ríkisstjórnar og fjárlaganefndar varðandi það sem menn kalla ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um útgjöld. Við höfum gert athugasemdir við það fyrirkomulag sem verið hefur. Eins og fram kom hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni hefur orðið nokkur breyting á því á þessu ári en við þurfum að ganga lengra í því þannig að þessi samskipti verði eins og fjárreiðulögin kveða á um. Ég hef sem formaður fjárlaganefndar lagt mikla áherslu á það og mun fylgja því eftir. Vonandi tekst að ná fullkomnum árangri í því.

Ég held líka að ástæða sé til þess fyrir fjárlaganefndina sérstaklega að fara fram á að fá upplýsingar jafnóðum um ýmsa samninga sem gerðir eru. Ég nefni sem dæmi tvo samninga sem birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Þeir eru annars vegar um uppbyggingu í Reykjanesbæ í tengslum við víkinga og fyrri aldir og hins vegar Hoffellsstofu í Skaftafellssýslu. Þarna er um að ræða mál sem út af fyrir sig eru góð mál. Ég ætla ekkert að segja annað um þau. En þetta eru samningar sem ríkisstjórn eða ráðherrar gera og birtast í fjárlagafrumvarpi. Fjárlaganefnd er einmitt á hverju ári að fjalla um ýmis erindi sem eru af sama meiði þannig að þetta er nokkuð sem ég tel að við þurfum að fara yfir og koma í betra horf.

Virðulegur forseti. Svona rétt í lokin vil ég bara segja að ég ítreka það sem ég hef áður sagt að það er almennt séð nauðsynlegt að auka aðhald við framkvæmd fjárlaga og almennt að auka aga í ríkisfjármálum og í ríkisrekstri. Það á við um ríkisstofnanir, það á við um ráðuneyti o.s.frv. og eitt af því sem við á Alþingi þurfum að leggja aukna áherslu á er að fylgja því eftir. Ríkisendurskoðun hefur fjallað um þessi mál. Ég tek undir þær ábendingar sem þar hafa komið fram. Þetta er verkefni sem ég tel að við þurfum að stórefla. Við höfum átt erfitt með það í fjárlaganefndinni að sinna þessu eftirlitshlutverki, sem ég vil kalla svo, með fullnægjandi hætti vegna þess að það hefur verið erfiðleikum bundið að fá upplýsingar úr rekstri ríkisins vegna breytinga sem urðu þar á tölvukerfum. En mér sýnist að það sé allt að komast í betra horf þannig að ég vænti þess að við fáum tækifæri og aðstæður til þess að fylgja þessu betur eftir í framhaldinu.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra, virðulegur forseti. Þetta er almenn umræða um fjáraukalagafrumvarpið. Fjárlaganefndin mun fara yfir þetta á næstu vikum og við munum síðan ræða þetta frumvarp við 2. umr. Ég vænti góðs samstarfs við félaga mína í fjárlaganefnd í þessu verkefni.