132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:56]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það sem hv. þingmaður nefndi síðast. Ég hygg að það sé atriði sem er í samningum milli ríkis og Bændasamtakanna og ég vísa bara í þá samninga.

Að öðru leyti get ég alveg tekið undir það með landbúnaðarháskólana að ég held að reynslan sýni okkur að einhvern veginn þurfi að ná þeim málum í betri farveg. Ég bendi hins vegar á að við getum ekki alveg borið þetta saman. Ef við tökum dæmi af Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sem er með starfsstöð á Hvanneyri og rekstur þar, RALA og Garðyrkjuskólann þá er náttúrlega ekki hægt að bera þann rekstur saman við háskóla, t.d. Háskólann í Reykjavík. Það er eins og að bera saman epli og appelsínu vegna þess að landbúnaðarháskólarnir eru í bullandi rekstri þannig að það er ekki sambærilegt. Ég er hins vegar sammála því að full ástæða sé til að reyna að koma þessum málum í betri farveg en hefur verið þannig að menn hafi betur fyrir framan sig hvernig hlutirnir eigi að vera.