132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:59]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að sendiráðin eru öll sett undir sama hatt, í einn pott getum við sagt. Ég tel að ákveðin rök séu fyrir því að hafa það öðruvísi. En ég held að þetta sé mál sem við þyrftum að fara yfir með fjármálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu þannig að menn komist að niðurstöðu um hvernig þetta ætti að vera. Ég ætla að öðru leyti ekki að tjá mig um þetta mál en ég lýsi mig tilbúinn til þess að fara yfir það sérstaklega eins og annað.