132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:04]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar við hv. þingmenn, ég og Jón Bjarnason, erum sammála og reyndar erum við það ansi oft þótt stundum kastist í kekki ef má orða það þannig.

Þetta með fjáraukalögin, ég ætla svo sem ekkert að orðlengja það, ég fór yfir það í ræðu minni og eins með eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Menn eru sammála um það og við þurfum að finna því farveg. Ég er sannfærður um að bara það eitt að fjárlaganefnd eða þingið beiti sér í eftirliti hefur ákveðin aðhaldsáhrif út í kerfið og þannig þarf það að vera.

Varðandi sölu Símans er vissulega alveg rétt að ríkið greiðir sjálfu sér fjármagnstekjuskattinn bara einu sinni. Engu að síður skapar það jöfnunarsjóði töluverðar tekjur á þessu ári og það er gott fyrir sveitarfélögin. Það er ekkert síðra en það sem oft hefur verið gert á hverju ári, þ.e. að veita sérstakt aukaframlag til jöfnunarsjóðs og menn hafa jafnan fagnað því hér . Ég held að út af fyrir sig sé það svipað að þessu sinni. Ég held því að þetta sé hið besta mál ef við lítum til sveitarfélaganna.