132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:07]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins fyrst, ég náði ekki að klára að svara með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þá vísa ég aðeins til samkomulags sem ríki og sveitarfélög gerðu fyrr á þessu ári eða hvenær sem það var síðast um þau mál.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki tíma til að taka aftur upp umræðuna um sölu Símans sem við ræddum í gær og höfum oft rætt áður. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um það mál að hinir miklu fjármunir sem við fáum fyrir söluna á Símanum skila okkur auðvitað gríðarlegum arði á svo mörgum sviðum. Við erum t.d. í þessu frumvarpi að sjá fram á milljarða lækkun vaxtagjalda, sem er m.a. vegna þess að við erum að greiða niður skuldir af þessum söluhagnaði. Hægt er að telja þetta og tína fram og til baka. Ég held að við hv. þingmaður ættum að fá okkur kaffibolla og fara yfir þetta. Ég er alveg sannfærður um að ef við gerum það í rólegheitum næ ég að sannfæra hv. þingmann um hversu gríðarlega gott mál þetta er. (JBjarn: Kaffi, komdu og fáðu þér kaffi.)